144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er oft talað um grunnstoðir samfélagsins í umræðum um stjórnmál og oft er litið á það sem einhvern frasa. En grunnstoðir samfélagsins eru ekki pólitískur frasi, þær eru þær stoðir sem halda samfélaginu uppi og gangandi. Þeirra mikilvægust er heilbrigðiskerfið. Það er í heilbrigðiskerfinu sem við fáum þjónustu þegar við veikjumst, þar fáum við lækningu eða líkn, þar fá börnin okkar umönnun, foreldrar okkar og við sjálf og það er það kerfi sem við treystum á og veitir okkur öryggi. Hér á landi erum við líka svo heppin að við fáum fyrsta flokks þjónustu frá frábæru fagfólki.

Þar vinna stéttir sem fara mjög ógjarnan í verkfall enda eru þær mjög trúar sínu fagi og fagþekkingu að veita bestu þjónustu sem völ er á og tryggja öryggi sjúklinga. Nú er verið að setja þessi lög með það að yfirskini að verið sé að tryggja öryggi sjúklinga en það er ekki raunin. Við í Samfylkingunni erum alfarið á móti þessari lagasetningu og hvers vegna? Af því að við vitum að heilbrigðiskerfið verður ekki starfhæft fyrr en skapast hefur sátt, sátt um það hvaða kjör eru þar innan dyra og hvernig við högum almennt málum þar og hvaða fjármuni við setjum í það kerfi.

Það hefur verið bent á það af fjölmörgum sem við höfum bæði talað við og sem við höfum fengið tölvupósta frá að það sé svo um Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri að þessar tvær stofnanir í íslensku heilbrigðiskerfi munu eiga mjög erfitt með að takast á við þessa löggjöf. Þar eru sumarfríin hafin og sá tími er oft mannaður með yfirvinnu. Það verður mjög erfitt að fá fólk til að vinna yfirvinnu þegar á rétti þess hefur verið brotið. Það er skortur á fólki í þessum stéttum eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir fór vel yfir í ræðu sinni og það er skortur á fjármunum til að ráða inn það aukastarfsafl sem þarf að ráða inn vegna stöðunnar. Við viljum halda því fram að það sé enn meiri ógn við kerfið að ráðast inn í það með þessari lagasetningu.

Þetta er líka sjálfskaparvíti ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ein af rótunum er í ársbyrjun 2014 þegar hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson gerði samninga við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna. Það var 30% hækkun til þess hóps sem ekki vinnur hjá hinu opinbera heldur sjálfstætt og samningarnir eru þar að auki verðtryggðir þannig að tvisvar á ári hækka þeir sjálfkrafa. Þetta eru kjarasamningar sem flestallir mundu vilja búa við, held ég. Þetta olli því auðvitað að það kom mjög mikil harka í kjarabaráttu lækna hjá hinu opinbera sem fóru eins og við munum í fordæmalaust verkfall síðastliðið haust sem endaði með kjarasamningi í ársbyrjun 2015. Þeir samningar voru undirritaðir þegar var að hefjast mikil samningalota á vinnumarkaði. Það var úr vöndu að ráða fyrir ríkisstjórnina. Það er flókið að stýra efnahagslífinu og stýra pólitískt í gegnum tíma sem þessa.

En hvert var val ríkisstjórnarinnar á þeirri ögurstundu? Að tala ekki við deiluaðila, sýna skeytingarleysi og skilningsleysi og ríkisstjórnin skar upp vantraustsyfirlýsingar frá verkalýðshreyfingunni sem og Samtökum atvinnulífsins. Niðurstaðan er sú að samningar náðust á almenna markaðnum og ríkisvaldið, ríkisstjórn Íslands, afsalaði sér kjarastefnu fyrir sitt starfsfólk. Ríkið er búið að afsala sér því að hafa kjarastefnu fyrir sitt starfsfólk og ætla bara að láta forsendurnar úr kjarasamningnum á almenna markaðnum ráða. Það atriði í frumvarpinu sem kveður á um að viðmiðin eigi að vera samningar undirritaðir eftir 1. maí er forkastanlegt og má ekki samþykkja. Það verður að færa þessi viðmiðunarmörk til áramóta þannig að læknasamningarnir séu líka undir. Að öðrum kosti skapast ekki sú sátt sem verður að skapa.

Og hvað kom fram í kvöldfréttum RÚV? Þar lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir að í læknadeilunni hefði ekki skapast það neyðarástand að setja þyrfti lög. En núna þegar stóru kvennastéttirnar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, geislafræðingar og lífeindafræðingar eru í verkfalli, þá hefur skapast þannig neyðarástand að hann telur mikilvægt að setja lög. Ég segi á móti, það er tímabært að hæstv. forsætisráðherra geri sér grein fyrir því að hann verður að meta þessar stéttir að verðleikum og láta kjör þeirra endurspeglast í mikilvægi þeirra.

Ég vil segja það hér að við í velferðarnefnd höfum í upphafi þeirra verkfalla sem dunið hafa yfir sem og uppsagna hjúkrunarfræðinga á síðasta kjörtímabili, sem voru síðan dregnar til baka því ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór í sérstakt jafnlaunaátak, höfum kallað til okkar landlækni, Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri og í einhverjum tilfellum Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu vegna þessara verkfalla. Við höfum ekki blandað okkur í kjaradeilurnar en við höfum spurst fyrir og aflað upplýsinga um áhrifin á öryggi sjúklinga og áhrif deilnanna á heilbrigðiskerfið til langs tíma. Það er því nauðsynlegt að þegar þetta mál fer til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd verði því vísað til umsagnar til velferðarnefndar svo við getum kallað þessa sömu aðila til okkar og farið yfir þetta. Ef meiri hluti Alþingis telur ekki mikilvægt að fá umsögn þeirrar nefndar sem er með heilbrigðiskerfið á sínu málasviði þá er tímabært að leggja þá nefnd niður.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki þann manndóm að flytja sjálfur þetta frumvarp en það vita allir að háskinn í málinu varðar heilbrigðisstéttirnar. Ef velferðarnefnd á ekki að fá að fjalla um málið þá lýsir þetta fullkomnu virðingarleysi gagnvart heilbrigðiskerfinu og þeirri mikilvægu starfsemi sem þar fer fram svo ég geng út frá því að það verði farið að ósk minni sem formanns velferðarnefndar.

Hæstv. forseti. Nú er það svo að þessi deila verður ekki leyst án aukins fjármagns. Við á Alþingi erum ekki í kjaraviðræðum og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að í kjaradeilu og samningaviðræðum þurfa aðilar að mætast með einhverjum hætti. En það vita það allir sem eitthvað þekkja til heilbrigðiskerfisins á Íslandi að það verður að auka fjármagn inn í kerfið, að öðrum kosti leysum við ekki þennan vanda. Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór vel yfir þann mönnunarvanda sem er í kerfinu. Hann mun bara versna ef ekki verður horfið frá þessari stefnu.

Varðandi aukin framlög til heilbrigðiskerfisins þá er það svo að hæstv. heilbrigðisráðherra sem og fleiri ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í fjarveru fjármálaráðherra, undirrituðu yfirlýsingu í kjölfar samninganna við lækna. Þar er talað um að heilbrigðiskerfið eigi að búa við sama ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd.

Þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hæstv. heilbrigðisráðherra út í það hvort hann ætlaði ekki að standa við þessa yfirlýsingu, þá brást ráðherrann ókvæða við og sagði að við byggjum bara við sömu kjör, hér væri kerfið með svipað fjármagn. Það er alfarið rangt. Það má sjá hér í frétt á Vísi að það þurfi um 33 milljarða í reksturinn til að ná meðaltali annars staðar á Norðurlöndunum. Það stendur bara hér, hér á þessu blaði og þá erum við ekki að tala um að komast á sama stað og Noregur sem er með miklu hærri fjármuni en við og þangað sem heilbrigðisstarfsfólkið okkar flýr í stórum straumum. Við erum bara að tala um það að ná meðaltalinu og svo tökum við auðvitað tillit til mannfjöldasamsetningar og slíkt. En það að hæstv. heilbrigðisráðherra afneiti þeirri staðreynd sýnir hvað við erum í ömurlegri stöðu. Það er enginn skilningur á þessu alvarlega vandamáli hjá hæstv. ríkisstjórn en öll þjóðin er sammála um að það eigi að forgangsraða skattfé til heilbrigðismála. Þetta er það sem stendur hjarta næst hjá konum og körlum, fólki í dreifbýli og þéttbýli, fólki óháð því hvað það kýs, óháð aldri og óháð tekjum. Heilbrigðiskerfið á Íslandi er það sem sameinar okkur sem þjóð og við verðum að setja meiri fjármuni í það.

Auk þess er vitnað í minnisblöð frá landlækni Íslands, landlækni Íslands sem er trúr því hlutverki sínu að tala fyrir öryggi sjúklinga. Hann hefur lýst yfir alvarlegum áhyggjum og hann segir að þó að binda ætti enda á verkfall án þess að samningar næðust leysti það ekki vanda kerfisins til lengri tíma. Það verði að koma afdráttarlaus yfirlýsing um að samningaviðræðum verði haldið áfram í þeim tilgangi að skapa viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins. Það er engin slík yfirlýsing í þessu frumvarpi. Það er bara sama skeytingar- og virðingarleysið gagnvart kvennastéttunum í heilbrigðiskerfinu. Og svo ætlum við að koma hér saman að viku liðinni til að fagna 100 ára kosningarrétti kvenna. Það verður nú aldeilis hátíðarsamkoma. Þar getum við barið okkur á brjóst að vera búin að berja niður stéttirnar í heilbrigðiskerfinu, konurnar í heilbrigðiskerfinu, það verður glæsileg samkunda og mun auka virðingu okkar.

Ég ætla að endurtaka að lokum: Lög eru engin lausn. Það verður að nást sátt og það verður að horfast í augu við að mikla fjármuni vantar í málaflokkinn. Við þurfum að gera það til að halda í hjúkrunarfræðingana, ljósmæðurnar, lífeindafræðingana og geislafræðingana sem nú eru við störf í opinbera kerfinu og við þurfum að gera það líka til að fá fleiri til að mennta sig og koma inn í kerfið til að geta haldið uppi fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu til framtíðar því álagið á kerfið mun bara aukast með hlutfallslegri fjölgun aldraðra.

Samfylkingin er alfarið á móti þessari lagasetningu og telur hana tefla framtíð heilbrigðisþjónustu á Íslandi í alvarlega tvísýnu.