144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:12]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er svo sem ekki gleðiefni að standa hér í dag og ræða þessa lagasetningu og það er óskaplega ömurlegt þegar maður heyrir í fólkinu sem starfar í þessum stéttum. Eins og ég sagði hér fyrr í dag, þó að rökin til að styðja þetta mál séu fyrst og fremst tengd heilbrigðisstarfsfólki þá eru fleiri stéttarfélög undir.

Mér hefur fundist mikilvægt af því að fólk sem vinnur í heilbrigðisgeiranum fær harða dóma núna úti í samfélaginu fyrir það að ganga á þriðja aðila, margt hvert, að mjög margir standa með því. Eins og hér hefur komið fram væru verkföll til einskis ef þau hefðu ekki einhverjar afleiðingar. Það er samt sem áður þannig að það vill enginn vera í þessum sporum. Þetta er eitthvað sem er gert í algerri neyð vegna þess að ekkert annað hefur gengið, ekkert annað hefur þokað málum áfram og þess vegna nýtir fólk sér þennan rétt.

Í öllu talinu um aðbúnað og aðstæður sjúklinga hefur mér fundist álagið sem heilbrigðisstarfsfólk hefur þurft að þola í ansi mörg ár gleymast. Heilbrigðisstarfsfólk þjáist af alls konar veikindum, stoðkerfisveikindum og ýmsu fleira, vegna þess að það vinnur undir miklu álagi. Við vitum að það er yfirleitt of fámennt en það er líka afskaplega duglegt fólk sem hleypur ansi mörg spor þrátt fyrir að fækkað hafi á hinum ýmsu deildum á sjúkrahúsunum, ekki bara á Landspítalanum. Það þýðir auðvitað að fólk brennur upp miklu fyrr í þessu starfi en eðlilegt ætti að vera vegna þess að það er undirmannað. Það vill auðvitað enginn að veikt fólk þurfi að bíða eftir þjónustu eða lækningu en mér finnst að það megi heldur ekki ganga á mannréttindi þeirra sem sinna störfunum. Mér finnst það mikilvægt.

Það sem hryggir mann í þessu sambandi núna, þegar verið er að setja lög, er að eftir sem áður er vandinn óleystur. Miðað við tölvupósta sem við höfum fengið þá erum við að missa enn fleira fólk til útlanda en verið hefur af því að þetta eru eftirsóttir starfskraftar. Það má segja, eins og kom einhvers staðar fram, að verið sé að mennta fólk til að starfa erlendis þar sem það fær betur borgað og aðbúnaðurinn er mun betri en hér.

Hvað var hæstv. heilbrigðisráðherra að segja þegar hann sagði hér í dag að hann sæi ekkert sem gæti orðið grunnur að samkomulagi? Hverju ætlar hann að ná fram fyrir 1. júlí? Ætlar hann að svelta fólk til hlýðni? Hvað er hann að segja ef enginn áhugi er fyrir því að semja, ef hann sér ekkert? Þá er augljóslega verið að taka verkfallsrétt af fólki ótímabundið undir því yfirskini að verið sé að fresta verkfalli. Það er ekkert sólarlagsákvæði í þessu frumvarpi. Viljinn virðist heldur ekki vera fyrir hendi. Ég velti fyrir mér hvað hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson ætli að bjóða til viðbótar því sem SA lagði fram sem grunn að þeim samningum sem boðnir hafa verið. Ef hann sér ekki neitt út úr þessu, hvað ætlar hann þá að bjóða? Hvað heldur hann að geti orðið til þess að samningar náist? Það hefur alla vega ekki komið skýrt fram ef hann sér ekki neitt sem geti orðið til að samkomulag náist.

Mér finnst ríkisstjórnin líka hafa farið mjög illa með tíma sinn. Það er heilmikill fórnarkostnaður í heilbrigðiskerfinu sem nú þegar hefur orðið vegna þess að menn hafa verið ósveigjanlegir í samningum. Í staðinn fyrir að ganga til samninga út frá þeirri kröfu að menntun beri að meta til launa og öðru sem hér hefur verið rakið þá er ákveðið að láta umboðið í hendur Samtaka atvinnulífsins. Ríkið er að firra sig ákveðinni ábyrgð. Það er algerlega ólíðandi. Mér fannst eins og fleirum að þær skattalækkanir sem hæstv. fjármálaráðherra boðaði strax og frumvarp um afnám hafta var lagt fram að það væri kannski ekki akkúrat það sem þyrfti í þessa umræðu. Þrátt fyrir að hann teldi að það kæmi öllum launþegum til góða þá vitum við og höfum rannsóknir fyrir því að það er ekki það sem virkar best ef reyna á að jafna kjör. Hér var meðal annars vitnað til rannsóknar Cambridge-háskóla sem hefur nýlega verið birt þar sem brauðmolakenningin er algerlega slegin út af borðinu.

Ég sagði hér líka í dag að eitt af því sem styrkti mig í trúnni á að ekki væri mikill vilji til að koma til móts við kröfur heilbrigðisstarfsfólks og annarra opinberra starfsmanna innan BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga væri að í ríkisfjármálaáætlun kæmi fram að 2% umfram launahækkun þýddi annaðhvort niðurskurð eða skattahækkanir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn er lítið fyrir það að ná inn tekjum með sköttum. Þá þyrfti að koma fram hvar ætti að skera niður ef hún hyggst bjóða betur sem hefur reyndar, eins og ég sagði áðan, ekki komið fram.

Haft var eftir Láru V. Júlíusdóttur, hæstaréttarlögmanni og sérfræðingi í vinnurétti, í Morgunútvarpinu í morgun að samningsréttur fólks væri ekki bara verndaður af stjórnarskránni heldur væri hann verndaður af alþjóðasamningum, Alþjóðavinnumálastofnuninni, félagssáttmála og ýmsum öðrum sáttmálum sem við sem löggjafarvald værum bundin af og lög væru ekki sett á verkföll nema annað hefði verið reynt. Ég lít svo á að ef menn mæta að samningaborði svo vikum skiptir alltaf með nánast sama tilboðið í höndunum þá eru þeir ekki búnir að reyna allt sem hægt er. Þá eru þeir búnir að festa sig í ákveðinni stöðu og neita að hlusta.

Gerðardómur sem hér er lagður til er líka eitt af því sem við höfum gagnrýnt. Ég vona, af því að ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, að horft verði til þess að breyta uppsetningu hans miðað við það sem frumvarpið kveður á um. Svo væri auðvitað áhugavert í ljósi þess sem kom fram hjá Láru í morgun að skoða það sem kallað er þvingaður gerðardómur, að undir vissum kringumstæðum væri sú leið fær og Alþjóðavinnumálastofnunin liti slíka aðgerð vægari augum og hún mundi auka líkurnar á því að fólki væri síður stillt upp við vegg. Mér fannst það áhugaverður punktur og við ræðum það kannski í nefndinni.

Það eru nokkur atriði í málinu sjálfu sem mér finnst beinlínis varhugaverð, hafandi tekið á móti alls kyns tölvupóstum sem vekja manni ansi mikinn ugg í brjósti, ekki bara fyrir okkur sem hér stöndum heldur fyrir framtíðarfólkið okkar, börnin okkar og barnabörnin, ef við stöndum frammi fyrir því að heilbrigðisstofnanir okkar geta ekki mannað deildir. Hvar stöndum við þá? Ég óttast það mikið miðað við það sem kom fram á Austurvelli í dag, af því að ég fór aðeins út, að það sé eitthvað sem við komum til með að standa frammi fyrir á allt of mörgum sviðum, að það verði í rauninni niðurstaðan. Fólk er ekki að segja starfi sínu lausu að gamni sínu og það var ekki að hóta því í þeim tölvupóstum sem við fengum senda að það mundi segja upp ef það yrðu sett lög. Fólki er gersamlega misboðið. Því misbýður fyrst og fremst sinnuleysið og framkoman gagnvart heilbrigðisstéttum landsins. Ég held að það sé nokkuð sem við verðum ofboðslega lengi að vinna úr og bíta úr nálinni með að hafa ekki tekið af skarið og samið fyrr. Þrátt fyrir að hér hafi komið fram að margar konur séu læknar, sem er alveg hárrétt, ég þekki nokkrar slíkar, þá breytir það því ekki að heilbrigðiskerfið starfar ekki án hjúkrunarfræðinga. Þar eru ekkert mjög margir karlar þó að þeir séu vissulega einhverjir. Það að hægt sé að semja við lækna og skrifa undir samninga um að byggja spítala, sem er svo hvergi að finna í ríkisfjármálaáætlun næstu fjögurra ára þannig það heldur svo sem ekki, það virkar á mann eins og sum störf séu talin mikilvægari en önnur þrátt fyrir að læknar mundu ekki starfa hér á spítölum okkar nema ef ekki væri fyrir hitt heilbrigðisstarfsfólkið. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga.

Ég hef líka áhyggjur af því að með því að vera með svona gerðardóm eða hvað það nú er sem verður gert þá hvergi ábyrgð ríkisstjórnarinnar á því að ná samkomulagi, þá verði menn búnir að vísa ábyrgðinni frá sér og koma henni yfir á aðra. Það finnst mér vera afskaplega dapurlegt og ekki skynsamlegt. Mér hefði fundist að ríkisstjórnin hefði, eins og ég sagði áðan, átt að taka þetta mál og klára það. Það er sérkennilegt að ætla að setja lög til að hvetja sjálfan sig til að semja því að það er það sem verið er að gera. Ríkið er samningsaðili og það er að setja lög til að hvetja sjálft sig til að semja. Það er mjög sérstakt.

Svo er auðvitað virðingin og traustið sem er verið að reyna að skapa í svona samningaviðræðum, eins og hér hefur líka verið rætt, að breyta þessu fyrirkomulagi og strúktúrnum í samningaviðræðum yfirleitt. Það er auðvitað mikil þörf á því af því að þetta er staða sem enginn vill standa frammi fyrir, en ríkisstjórnin getur ekki farið eftir því sem stendur í hennar eigin sáttmála um að stuðla að sátt og samlyndi milli vinnumarkaðar og ríkisstjórnar. Heilbrigðisstarfsfólkið sem er á vegum ríkisins og aðrir sem þarna eru undir eru hluti af vinnumarkaðinum. Svo ég endurtaki það aftur, það eru miklu fleiri undir þótt rökstuðningurinn sé fyrst og fremst gagnvart heilbrigðisstarfsfólki og þeirrar neyðar sem þar er.

Svo ég verði pínulítið lagatæknileg í restina þá er líka áhugavert að sjá hvernig greinargerðin er sett fram hjá ríkisstjórninni. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að ríkisstjórnin setur ekki lög, það gerir Alþingi. Hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Ekki verður heldur litið fram hjá því að með aðgerðum BHM og FÍH hafa félögin nýtt rétt sinn til verkfallsaðgerða. Samningsfrelsið og verkfallsrétturinn hafa að mati ríkisstjórnarinnar náð tilgangi sínum upp að því marki sem nýtur verndar 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. MSE. Líkt og áður segir er hins vegar komið að því tímamarki að aðgerðirnar stefna almannahagsmunum og réttindum annarra í hættu og er ríkisstjórninni nauðugur einn kostur að stöðva þær.“

Ríkisstjórnin gerir það ekki, hún ákveður hins vegar að leggja þetta frumvarp fram. Ég minni á að þingmenn þurfa að samþykkja það, ekki bara ráðherrar.

Svo segir hér í lokin, með leyfi forseta:

„Að mati ríkisstjórnarinnar“ — enn og aftur — „er fyrirsjáanlegt að úrræði sem ríkissáttasemjari ræður yfir dugi ekki til að leysa kjaradeilur aðila.“

Þetta „að mati ríkisstjórnarinnar“ er í rauninni merkilegt og sýnir hvað hún setur sjálfa sig gjarnan á háan hest í mörgu sem hún gerir. Mér finnst það mikilvægt og sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem úti eru að átta sig á því að það er ríkisstjórnin sem leggur þetta fram en það verða væntanlega þingmenn meiri hlutans, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem koma til með að samþykkja þessi lög.