144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um lög gegn verkföllum BHM og Félags hjúkrunarfræðinga, dökkur dagur í raunveruleikanum, sérstaklega hvað varðar heilbrigðismálin í landinu en líka vegna þess hvernig þetta ber að. Það hefur komið fram ágætlega í umræðunni fyrr í dag að ítrekað hafa verið gerðar tilraunir til að fá að ræða kjaramálin hér á Alþingi, fá að ræða stöðuna í heilbrigðismálum, fá að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar, hvað hún hafi gert til að ná samningum til að komast hjá því að deilan hefði svona alvarleg áhrif. Það kemur alltaf betur og betur í ljós að það virðist vera að menn hafi umgengist þetta verkfall þannig, sérstaklega verkfall BHM sem fór af stað langfyrst og er raunar hafið 7. apríl síðastliðinn, að menn hafi ekkert ætlað að semja. Það hefur líka komið fram í viðtölum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að ekki sé hægt að semja við opinbera starfsmenn fyrr en samningar liggi fyrir á almennum markaði en þegar maður skoðar það í því samhengi sést að þegar samningar hafa náðst á almenna markaðnum þá er í raun ekkert á borðinu nema þeir samningar. Þá er líka farið að beita því að í þeim samningi er ákvæði um að ef opinberi geirinn og samningar hjá BHM og hjúkrunarfræðingum skila meiru þá eigi að taka upp samningana á almenna markaðnum. Það er sem sagt búið að tengja þetta saman þannig að það má segja að samningsrétturinn hafi þarna verið meira og minna verið tekinn af bæði BHM og Félagi hjúkrunarfræðinga. Þetta er auðvitað gríðarlega alvarlegt mál og útilokað að sætta sig við það að ákveðnar stéttir verði að sæta því að geta ekki samið um sín kjör.

Það hefur komið ágætlega fram, m.a. hjá síðasta ræðumanni, að það er dapurlegt að fylgjast svo með umræðunni, t.d. í máli málshefjanda, hæstv. ráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, þegar hann segir m.a., með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin hefur ekki viljað hafa afskipti af deilunni.“ Hann talar í 3. persónu, að þeir séu ekki aðilar að deilunni. Það er líka mjög alvarlegt að segja má að allar forsendur sem eru á borðinu séu lagðar af ríkisstjórninni og umboðinu sem samninganefndin hefur er lokað af ríkisstjórninni. Síðan tala menn um eins og þeir hafi ekki komið nálægt þessu og það kemur aftur og aftur fram í umræðunni, það er eins og þeir hafi ekki skipt sér neitt af. Og það er kannski rétt, þ.e. þeir settu mjög stranga umgjörð, bönnuðu mönnum að semja um meira en eitthvað ákveðið og síðan komu þeir ekkert nálægt því að öðru leyti og hafa lítið sem ekkert gert til að reyna að afstýra verkfalli, hvað þá að reyna að stöðva það með því að gera kjarasamning.

Ég segi að það hafi verið vont að fá þetta inn í alla umræðuna um heilbrigðismálin vegna þess að segja má að alveg frá því fyrir hrun hafi t.d. Landspítalinn verið nánast gjaldþrota. Hann var með 3 milljarða halla á góðæristímanum. Síðan eftir 2007–2008 tímabilið kemur ný ríkisstjórn þar sem verið er að endurreisa samfélagið eftir hrun og það er hægt að segja hreinskilnislega að þar var gengið mjög hart að heilbrigðiskerfinu. Við sem að því stóðum og undanskil ég ekki þann sem hér stendur fórum þá fram árið 2012 og sögðum: Við höfum þegar gengið of langt og nú verður ekki gengið lengra. Við byrjuðum að gefa til baka inn í heilbrigðiskerfið og það skipti mjög miklu máli, settum pening í það til að reyna að snúa málunum eitthvað við. Þá höfðu staðið yfir uppsagnir m.a. hjúkrunarfræðinga, náðist að komast út úr því með ákveðnu samkomulagi og deilum við lækna árið 2011 og fleira.

Síðan gerist það að ný ríkisstjórn tekur við með stór fyrirheit en það fyrsta sem hún gerir er að leggja fram fjárlög með 1 milljarði í niðurskurð. Þá kemur aftur kjaftshögg. Svona hefur þetta gengið. Það koma fögur fyrirheit en svo koma alltaf endalaus kjaftshögg og eitt af kjaftshöggunum sem verið er að reka í andlitið á þeim starfsmönnum sem eru í heilbrigðisgeiranum kemur í dag með þessu frumvarpi til laga sem ríkisstjórnin býður samningsaðilum upp á.

Nú var það ákvörðun okkar í stjórnarandstöðunni, þ.e. flestra, og Samfylkingin tók þá afstöðu að fyrst málið kæmi svona frá ríkisstjórninni væri rétt að tefja það ekki í fimm daga þangað til það kæmist inn í þingið heldur að taka það fyrir strax og reyna að ræða það ítarlega og reyna að fá vandaða umfjöllun og breytingar á því í umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem mér skilst að fái frumvarpið til umfjöllunar. Þá skiptir auðvitað mjög miklu máli að kalla inn aðila deilunnar og reyna að fá upplýsingar um hvaða ágreiningur hefur verið uppi á borðinu, til hvaða aðgerða hefur verið gripið, hvað ríkisvaldið hefur boðið eða lagt fram til að leysa deiluna. Það er líka mjög mikilvægt að fá að vita hvað eigi að gera eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann segir að hann vonist til þess að á næstu 14 dögum, áður en gerðardómur taki til starfa, verði hægt að ná samningum. Þá hlýtur að vakna sú spurning og það verður ein af þeim spurningum sem hlýtur að koma fram í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem þarf að spyrja hæstv ráðherra: Hvað ætlar hann að leggja nýtt á borðið til að hindra það að gerðardómur taki til starfa? Auðvitað vilja allir að það verði samið og það er ákveðinn tímagluggi til staðar. Það er alveg augljóst að hægt er að ná samningum en til þess þarf fjármagn, viðbótarfjármagn í þennan geira. Þetta gildir auðvitað um fleiri starfsmenn og þótt ég ræði hér sérstaklega um heilbrigðisstarfsmenn þá geri ég mér fulla grein fyrir að fleiri eru í verkfalli og við getum talið þar upp dýralækna, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Leikarafélag Íslands, sjúkraþjálfara, Sálfræðingafélag Íslands, bókasafns- og upplýsingafræðinga, Þroskaþjálfafélag Íslands og Stéttarfélag lögfræðinga.

Þegar við lítum á aðdragandann að þeirri deilu sem hér hefur verið uppi og við hvað er verið að miða þá er ljóst að gerðir hafa verið samningar af ríkinu sem hleyptu ýmsu í gang. Fyrst eru að vísu, og það er ágætlega rakið í frumvarpinu, gerðir samningar í desember 2013. Það er almenni markaðurinn og aðilar vinnumarkaðarins sem gera samning til skamms tíma til að reyna að hemja verðbólguna og til að ná stöðugleika, þeir gera sátt í desember og ríkisstjórnin er aðili að því og ætlar að koma með eitthvert innlegg í þá samninga. Það tókst nú ekki hönduglegar til en svo að aðgerðirnar fóru ekki af stað fyrr en í júní árið eftir og þær voru afar veigalitlar og mjög veikburða. Þær voru fyrst og fremst lækkun á gjöldum á áfengi og tóbak og bensín, við höfum margítrekað hér að þar var verið að ræða um 20 kr. á rauðvínsflöskuna og 1 kr. á bensínlítrann sem hefur sjálfsagt aldrei skilað sér vegna þess að það var svo mikil hreyfing á bensínverðinu á þeim tíma. Þetta var framlag ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma lögðu sveitarfélögin myndarlega til með því að stöðva gjaldskrárhækkanir hjá sér á þeim tíma.

Síðan gerist það í framhaldinu að næstu samningar sem tengjast heilbrigðisstéttunum eru samningar við sérgreinalækna sem höfðu verið samningslausir í ákveðinn tíma. Það voru ákveðin rök fyrir því að það þyrfti að gera samninga en þá gera menn það svo rausnarlega að þeir taka inn í hækkunina hjá sérgreinalæknum nánast allt það sem þeir höfðu sjálfir ákveðið að hækka sína gjaldskrá og tekjur um. Og því til viðbótar verðtryggja þeir samninginn. Í þriðja lagi eru innifaldar í þeim samningi magnaukningar. Þarna eru á milli 300 og 350 læknar sem vinna hjá einkageiranum, í einkafyrirtækjum eða á eigin stofum og margir hverjir og langflestir vinna líka á spítölunum. Síðan fara menn í samninga við læknana og segja: Við ætlum að bjóða ykkur 3,5%. Það gekk auðvitað ekkert upp og endaði með því að gerðir voru læknasamningar sem voru mun ríflegri en það. Á sama tíma koma aðrar heilbrigðisstéttir og vilja fá sambærilegar hækkanir. Það merkilega er að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að viðmiðunin hjá gerðardómi varðandi hækkanir sé frá 1. maí, þ.e. eftir að samningarnir voru gerðir af ríkisstjórninni við framhaldsskólakennara hjá ríkinu og við lækna. Þetta gengur auðvitað engan veginn. Það verður að fjarlægja þetta viðmið og færa það aftur til áramótanna þannig að það sé allt undir þegar gerðardómur metur hver hækkunin eigi að vera. Þarna brustu ákveðnir hlutir.

Á sama tíma eru svo gefin fyrirheit í tengslum við læknasamninginn með ítarlegum samningi þar sem aftur kemur ákveðin bjartsýni. Það er stefnt að því að byggja nýjan spítala, bæta tækjakost, við ætlum að ná því markmiði að keppa við Norðurlöndin hvað varðar fjárframlög, umbúnað og allt það. Svo kemur þetta, kjaftshögg beint ofan í það. Við erum að tala um að ef menn ætla að standa við þennan samning þá vantar 10, 20, 30 milljarða inn í heilbrigðiskerfið nú þegar bara til að standast samanburðinn við Norðurlönd. Það sem við erum að tala um núna, við eigum eftir að fá þær tölur betur skýrðar í nefndinni, er um 3, 4, 5 milljarðar í heildina sem þyrfti til að ná samningum í þessari kjaradeilu.

Þannig er málið allt hið versta og ber vott um litla virðingu, sérstaklega ef maður skoðar það líka í samhengi við að hv. formaður fjárlaganefndar kemur hér ítrekað og talar niður opinbera starfsmenn, réttindi þeirra, þau séu allt of mikil, það eigi að vera hægt að reka fólk o.s.frv. Hæstv. fjármálaráðherra kemur og segir að jöfnun í landinu sé orðin of mikil og þá hverfa út allar hugmyndir um að við séum að reyna að rétta hlut svokallaðra kvennastétta eða stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta, alltaf eru þær látnar sitja eftir. Jafnvel þegar við gerðum tilraun til að koma með jafnlaunaátak með 5% meðaltalshækkun sem var meiri hjá sumum en eftir stofnanasamninga eru menn búnir að sækja sér það fljótt á eftir.

Enn þá verðum við líka að búa við að ákveðnar fagstéttir fái miklu meira en aðrar. Þannig getum við tekið þá sem koma út úr skólum sem verkfræðingar eða tæknifræðingar eða eru í þeim greinum sem voru ef maður lítur aftur í tímann hefðbundnar karlagreinar og ber þær saman við sálfræðinga eða hjúkrunarfræðinga þá er kannski 100 þús. kr. munur á mánaðarlaunum í byrjunartaxta hjá jafn gömlum einstaklingum með jafn langa menntun. Hvað réttlætir þetta? Ég er að tala um starfsfólk hjá ríkinu. Ég er ekki að tala um fólk sem vinnur í einkageiranum og getur sótt sér viðbótarlaun í samningum við atvinnurekanda þar.

Það er mikilvægt að núna þegar málið fer til nefndar að farið verði yfir lögin. Eftir sem áður get ég ekki séð að Samfylkingin eða sá sem hér stendur muni undir neinum kringumstæðum samþykkja þessi frumvörp. Við erum algerlega á móti þessari aðferð og teljum að ríkisstjórnin og ríkið hafi með engum hætti fullreynt á möguleikana á því að ná samningum, hafi þvert á móti falið sig á bak við samninga á almennum markaði og talið að þeir mættu ekkert gera og akkúrat fundið hvar þeir ættu að stoppa. Nú væri komið nóg, það væru að koma vaxtahækkanir, það væri verðbólguþrýstingur og þá ætlum við að stoppa hjúkrunarfræðinga og við ætlum að stoppa BHM. Það er fólkið sem þeir ætla að láta bera ábyrgðina á stöðugleikanum.

En við þurfum að ræða hvernig gerðardómurinn er skipaður. Á Hæstiréttur að skipa hann eins og sagt er í frumvarpinu? Ég hef sjálfur aðhyllst það að menn fái aðila máls í dóminn og skipi svo oddamann þannig að við borðið verði þeir aðilar sem hafi verið að deila en síðan verði oddamaður skipaður af Hæstarétti. Ég er áður búinn að nefna þetta tímaviðmið hjá dómnum sem er 1. maí. Það er algerlega nauðsynlegt að færa það tímaviðmið aftur til 1. janúar 2015 þannig að það nái yfir læknasamningana og framhaldsskólakennarasamningana. Það má lesa út úr þessu frumvarpi að forsendur fyrir gerðardómi eru nánast skrifaðar þannig að niðurstaða gerðardóms verði bara samningstilboð ríkisins. Það getur ekki verið mikill gerðardómur sem er settur slíkur rammi. Í síðasta lagi má nefna að það er mjög óvenjulegt að gerðardómur geti ákveðið lengd banns við vinnustöðvun, verkfallsrétturinn er afnuminn í þann tíma sem gerðardómur ákveður. Og við sjáum fyrir okkur að ef menn ákveða að gerðir verði samningar til þriggja, fjögurra ára verður búið að taka verkfallsréttinn af öllum þessum félögum til þriggja, fjögurra ára. Það gengur engan veginn upp og er óásættanlegt með öllu að beitt sé svo miklu inngripi í stjórnarskrárbundinn samningsrétt.

Þetta er mjög stórt mál og mikið prinsippmál, sorglegt að það skuli bera svona að, sorglegt að menn skuli ekki hafa staðið sig betur í að ná samningum, sorglegt að þetta skuli vera enn eitt höggið á heilbrigðiskerfið. Það verður svo okkar verkefni að gera það skásta úr þessu á þingi. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá fyrri ræðumanni að það er auðvitað atkvæði hvers og eins þingmanns sem ræður því hvort frumvarpið verður að lögum eða ekki. (Forseti hringir.) Ég boða mótatkvæði mitt og ég ætla að vona að einhverjir stjórnarþingmenn greiði líka atkvæði á móti þannig að þetta fari ekki létt og lipurt í gegn.