144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Nú hafa verkföll BHM staðið í um 11 vikur og hjúkrunarfræðingar hafa verið í verkfalli í tæpar þrjár vikur. Hér stöndum við í dag og í kvöld og ræðum það hvort setja eigi lög á þessi verkföll. Ég vil í upphafi máls míns byrja á að segja að ég er því algerlega mótfallin að það verði gert.

Eitt af því sem truflar mig einna mest í þessu máli er að hér er kjaradeila þar sem BHM og hjúkrunarfræðingar eru í deilum við ríkið og nú ætlar þetta sama ríki að koma og setja lög á verkfallið. Þetta finnst mér bara alveg rosalega óþægileg staða að vera í því að hér eru ekki einhverjir utanaðkomandi aðilar að deila sem ríkið ætlar svo að grípa inn í, heldur er það hreinlega ríkið sem situr við samningaborðið.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði í flutningsræðu sinni — og það er reyndar alveg umtalsefni svo sem út af fyrir sig ef maður vill hvers vegna hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytur málið en ekki annaðhvort hæstv. fjármálaráðherra eða hreinlega hæstv. forsætisráðherra, en gott og vel. Það var hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem flutti málið, Sigurður Ingi Jóhannsson. Hann sagði í flutningsræðu sinni að hann ætlaði ekki að fara í gegnum þær kröfur sem settar hefðu verið fram. Ég velti fyrir mér, hvers vegna ekki og spyr hvort það hefði kannski ekki einmitt getað orðið til þess að varpa frekara ljósi á málið, þó svo reyndar hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hafi aðeins komið inn á það í ræðu sinni. En ég teldi það mjög til bóta að við sem eigum að vera að ræða þetta mál og taka lokaákvörðunina um það hvort lög verði sett á eða ekki, það hlyti að vera til bóta að við værum betur upplýst í 1. umr. um það hvað það virkilega er sem deiluaðila greinir á um en vonandi er það eitthvað sem mun þó alla vega koma fram í störfum nefndarinnar og við höfum þá kannski fyllri forsendur þegar við ræðum málið við 2. umr.

Hæstv. ráðherra sagði einnig í ræðu sinni eitthvað á þá leið að fresta ætti verkfalli og gefa fólki tækifæri til að ræða saman. En hvað hefur gerst síðustu 11 vikurnar? Er það ekki einmitt sá sami aðili og hér er að leggja til lög sem hefur verið að ræða við þessa aðila? Þar hefur þetta tækifæri til samræðunnar skort. Ég get ekki séð að það breyti neinu um grundvöllinn til samræðunnar að setja lög. Ég held að það hljóti frekar að hleypa illu blóði í þá sem lögin eru sett á, að komið sé svona fram við þá eftir að ekkert hefur gengið í samningaviðræðum.

Það er óskaplega skrýtið að á sama tíma og þingmenn voru að kynna sér frumvarpið í morgun bárust fregnir af því að hæstv. fjármálaráðherra væri kl. 12 að fara að tala við félaga sína um skattalækkanir. Inn í hvers konar umhverfi eða inn í hvaða samfélag er hæstv. ráðherra að tala um skattalækkanir ef vandinn er sá að ríkið hefur ekki efni á að greiða þeim sem starfa hjá ríkinu laun sem eru samkeppnishæf við það til dæmis sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndunum? Er það þá rétti tíminn til að fara að lækka skatta? Ég held alls ekki. Ég held að það sé frekar merki um það að við þurfum á skattfé að halda til að geta rekið hér samfélag með sterkum innviðum. Innviðirnir eru gríðarlega veikir eftir hrun og við þurfum síst á því að halda að þeir verði veiktir enn frekar. Við þurfum einmitt að styrkja þá og partur af því að styrkja innviðina er að efla heilbrigðiskerfið til dæmis. Þegar læknar fóru í verkfall fyrir ekki svo löngu var mikil áhersla lögð á það að semja og sem betur fer tókust samningar. Þá var birt yfirlýsing sem skrifað var undir af stjórnvöldum sem og Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands þar sem lögð var áhersla á mikilvægi heilbrigðiskerfisins og vilja til þess að styrkja það og bæta. Hvað varð eiginlega um þá áherslu? Er hún gufuð upp núna? Við vorum fyrir nokkrum dögum að ræða um tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára. Þar var ekki að sjá þess stað að sérstakur vilji væri fyrir því að styrkja og bæta innviðina heldur kom þar einmitt fram að draga eigi úr, að lækka eigi um 1% til ársins 2019 það sem fer í samneysluna. Það mundi ég ekki telja að væri að styrkja innviðina.

Annað sem hefur truflað mig talsvert í umræðunni núna um þetta verkfall er þegar talað er um að þessar verkfallsaðgerðir geti komið niður á heilsu sjúklinga. Auðvitað er það alveg rétt að verkföll á spítala koma niður á heilsu sjúklinga, en það að fara að setja lög á núna held ég að sé ansi skammgóður vermir. Mig grunar að fleiri þingmenn en bara sú sem hér stendur hafi fengið talsvert af tölvupósti í dag þar sem kemur einmitt fram að hjúkrunarfræðingar, og einna helst kannski hjúkrunarfræðingar, eru byrjaðir að segja upp eða eru að íhuga það.

Það liggur alveg fyrir að okkur vantar hjúkrunarfræðinga inn í framtíðina og þess vegna held ég að með því að setja lög á verkfallið núna sé kannski hægt að bjarga einhverju til mjög skamms tíma en þegar til langs tíma er litið hafi þetta mjög neikvæð áhrif á velferðarkerfið okkar.

Svo finnst mér líka óþægilegt hversu mikil áhersla er lögð á það ástand sem er uppi núna, að það stefni lífi, heilsu og öryggi manna í hættu og þess vegna er sagt að það standi mjög ríkir almannahagsmunir til þess að starfsemi á heilbrigðisstofnunum landsins komist í eðlilegt horf. Það er alltaf fyrst talað um heilbrigðisstofnanirnar en svo hanga reyndar aðrar starfsstéttir þar með. En mér finnst eins og hér sé verið að spila á tilfinningar og samvisku starfsfólks sem er í verkfalli og það sé fyrst og fremst verið að spila á tilfinningar og samvisku starfsfólks sem er í miklum meiri hluta kvennastéttir, umönnunarstéttir sem eru jafnvel stéttir sem hafa í sögulegu ljósi þurft að búa við það að vinnuframlag þeirra sé ekki metið til fjár til jafns við aðrar stéttir. Þess vegna finnst mér hún verulega truflandi sú áhersla sem hér er lögð á öryggisþáttinn, þ.e. einhliða. Það er ekki bara starfsfólksins að koma að samningaborðinu heldur er það auðvitað líka ríkisins. Það er líka ríkið sem ber ábyrgð á því ástandi sem upp er komið.

Í fylgigögnum með frumvarpinu er í þremur línum lagt mat á áhrifin af frumvarpinu og þar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að ríkir almannahagsmunir eru til staðar fyrir því að stöðva verkfallsaðgerðir til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru í húfi og verði frumvarp þetta samþykkt mun það leiða til þess að starfsemi heilbrigðisstofnana og annarra ríkisstofnana komist í eðlilegt horf á ný.“

Líkt og ég kom inn á hér fyrr í máli mínu er ekki verið að hugsa um langtímaáhrifin. Hér er ekki reynt að gera neina tilraun til að leggja mat á það hvort þetta lagafrumvarp og þetta verkfall sé líklegt til að leiða til uppsagna þó svo það liggi alveg fyrir að hjúkrunarfræðingar sérstaklega, en einnig geislafræðingar og fleiri stéttir, hafi verið að boða uppsagnir. Hvaða áhrif mun það hafa á heilbrigðiskerfið? Af því hef ég verulegar áhyggjur.

Að lokum langar mig að koma aðeins inn á umfjöllun um gerðardóminn sem er í 3. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gerðardómurinn skal við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi.“ — Það á sem sagt ekkert að horfa til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru til dæmis við lækna fyrr á árinu. — „Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála.“

Hér finnst mér verið að binda í lögin hvað gerðardómurinn eigi að hafa að viðmiði. Það er í rauninni verið að segja að ríkið ætli að skipa gerðardóm og við erum búin að segja, ef þetta frumvarp verður samþykkt, að hvaða niðurstöðu hann eigi að komast. En ég tel alveg ljóst að heilbrigðiskerfið þoli ekki til lengdar það ástand sem nú ríkir. Það sem heilbrigðiskerfið þolir ekki er að starfsfólkinu sem þar vinnur finnist það og vinnuframlag þess ekki vera metið að verðleikum þegar kemur að launakjörum og starfsumhverfi. Það lögum við ekki með því að setja þessi lög á. Þess vegna ætla ég að greiða atkvæði gegn þeim.