144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn hvað hún telur að stjórnvöldum gangi til því að það er alveg ljóst hverju var lofað fyrir kosningar — ókei, menn svíkja kosningaloforð o.s.frv. en það er líka ljóst, og kom fram þegar ég hélt hér ræðu því að þá kinkaði heilbrigðisráðherra kolli, að hann gerir sér grein fyrir því að það að setja verkföll á heilbrigðisstarfsmenn getur þýtt að þeir fari. Þeir voru mjög meðvitaðir um það þegar þeir sömdu við lækna fyrr á árinu. Hæstv. heilbrigðisráðherra er líka meðvitaður um það að þetta setur fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu.

Það er svigrúm til staðar, bæði á fjárlögum sem voru 3,4 milljarða hallalaus síðast og með frumvörpunum um losun hafta, með uppgreiðslu skulda ríkisins við Seðlabankann sparast rúmir 7–7,5 milljarðar, ef ég man rétt, í vaxtagreiðslum ríkissjóðs á ársgrundvelli. Það er svigrúm til staðar fyrir ríkissjóð. Stjórnvöld geta að sjálfsögðu forgangsraðað til heilbrigðismála. Það kostaði um 4 milljarða að semja við lækna, eitthvað slíkt, og þetta getur verið eitthvað svipað en fyrir helmingi fleiri starfsmenn þó. Þetta er svipuð upphæð. Svigrúmið er til staðar. Það er ekki nauðsynlegt að setja lög.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað stjórnvöldum gengur til með þessu en mig langaði að spyrja þingmanninn hvað hún sér fyrir sér í því.