144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef sagt um þessa stofnun, Alþingi, þá er rétt að fólk treysti henni ekki ef hún er ekki traustsins verð. Ég held að það sé það sem við erum að sjá í samfélaginu, landsmenn treysta ekki þessari stofnun og það réttilega. Landsmenn treysta þessari ríkisstjórn ekki vel og það réttilega. Ég held að þetta útspil sem er ónauðsynlegt og óábyrgt muni minnka traust á ríkisstjórninni enn þá frekar og það réttilega.

Þetta er nefnilega ekki nauðsynlegur gjörningur. Það er til önnur og farsælli leið, það er að semja. Og ef menn hafa raunverulegan sáttarhug og hafa samninga í huga þá á náttúrlega að leysa þetta strax með samningnum sem lausn inn í framtíðina til þess að heilbrigðisstarfsfólk fari síður eða ekki. Þá spila menn ekki út svona lagafrumvarpi. Þá gefa menn minni hlutanum, aðilum, deiluaðilum, þ.e. þeim sem á að setja lög á ef menn telja nauðsynlegt að setja lög á verkfall, tíma til að skoða þetta. Þá að lágmarki gera menn þetta ekki svona í flýti heldur gefa mönnum tækifæri til þess að skoða málið og finna þá kannski lausnir hérna. Því er ekki til að dreifa. Þessu er húrrað inn í þingið, menn rífast um það hver eigi að flytja málið. Allt ferlið er mjög ótraustvekjandi. Menn húrra málinu inn í þingið, þrýsta því á dagskrá og vilja líklega bara klára þetta sem fyrst eins og önnur lög sem þessi ríkisstjórn setur á.