144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Sumir þingmenn stjórnarliðsins voru að býsnast yfir því hvar þingflokksformenn og formenn minni hlutans væru. Ég get sagt þeim það. Þeir eru á fundi núna með þeim aðilum verkfallsins sem á að setja lög á. Ég get líka sagt þessum sömu hv. þingmönnum hvar stjórnarherrarnir eru. Þeir eru á landsleiknum í stað þess að sitja hérna í þinghúsinu og ræða þetta mál. Fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekkert forgangsatriði fyrir þessa ríkisstjórn.

Varðandi hættuástandið, að sjálfsögðu er það hættuástand sem getur skapast. Heilbrigðisráðherra stóð hérna í þessum sal og jánkaði því þegar ég nefndi það í ræðu í dag. Að sjálfsögðu, það vita allir. Það er verið að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu, það vita það allir. Það er ekki í forgangsröð þessarar ríkisstjórnar að halda hér uppi fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Ég veit bara ekki hvernig ég get sagt þetta skýrar. Þetta er alveg ótrúlega sorglegt, ótrúlega sorglegt. Það eru til peningar fyrir þessu, það vantar bara viljann. Það vita það allir þingmenn sem sitja hérna inni og horfa í barm sér. Þeim líður illa með þetta, ég veit það alveg. (Gripið fram í.) Einn þingmaður segir: Ég er að skrifa. En ég sé samt alveg að þér líður illa með þetta. Auðvitað á mönnum að líða illa með það að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu og heilbrigðisráðherra viðurkennir að þetta setur fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu. Við höfum efni á því að koma í veg fyrir það.