144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar góðar ræður, og ég held að þetta mál liggi allt miklu ljósar fyrir en áður og það sé alveg rétt sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson sagði áðan að þetta mál er með eindæmum illa gert af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég man varla eftir þingmáli sem tengist vinnudeilum sem er jafn götótt, sem er jafn hæpið og þar sem menn skauta heldur frítt um það sem rétt er og satt. Og þó að ég eigi ekki margt sökótt við hæstv. landbúnaðarráðherra í þessu máli, sem er nú kannski af mörgum ráðherrum sá sem saklausastur er þrátt fyrir að flytja þetta mál, þá ber hann eigi að síður ábyrgð á þessu frumvarpi. Það eru stöku atriði sem ég þarf að spyrja hann út í af hverju eru eins og þar kemur fram, til dæmis með hvaða hætti hæstv. ráðherra leyfir sér að vitna í minnisblaðið frá landlækni, þar sem mér sýnist að ákaflega veigamiklar ábendingar hjá landlækni séu ekki birtar í greinargerð með frumvarpinu sem þó sannarlega áttu erindi við hvern einasta mann sem hér hefur rætt.

Ég hafði hins vegar ekki í hyggju að koma hér til þess að halda ræðu fyrr, en ég átti í dag stutt andsvör við hæstv. heilbrigðisráðherra. Viðskilnaður hans við mig þegar ég átti ekki lengur kost á því að leiðrétta úr honum rangfærslur, var með þeim hætti að ég sé mig tilknúinn til þess að koma hingað til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra. Ég er sannfærður um að hann er hér einhvers staðar í nálægu herbergi og kemur örugglega hlaupandi í lok ræðu minnar til þess að svara, þannig að ég geri engan sérstakan ágreining um það við hæstv. forsætisráðherra þó að hæstv. heilbrigðisráðherra sé ekki staddur hérna algjörlega fyrir framan mig nákvæmlega á þessu augnabliki.

Áður en ég kem að þeim atriðum sem ég hef örlítið drepið hér á verð ég að segja að það sætir auðvitað furðu með hvaða hætti þetta mál er flutt. Það má í sjálfu sér bera lof á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem tekur að sér kóngsins járn og arbeið og flytur þetta mál þó að hann sé nánast ekki tengdur málinu að nokkru leyti. Nokkur af þeim stéttarfélögum sem þessi lagagerningur á að ná yfir tengjast vissulega hans ráðuneyti en þegar maður les hins vegar heiti þessara 17 stéttarfélaga þá er langmest af þeim undir verksviði hæstv. heilbrigðisráðherra. Að öllu eðlilegu hefði annaðhvort hæstv. forsætisráðherra flutt þetta frumvarp ellegar hæstv. heilbrigðisráðherra.

Ég hef sjálfur sagt það sem mína skoðun á því hvernig haga beri góðri stjórnsýslu að vitaskuld, miðað við að þetta frumvarp, ef að lögum verður, á að ná til starfsmanna ríkisins sem heyra undir fjóra ráðherra, hefði verið eðlilegast að hæstv. forsætisráðherra hefði flutt málið. Hæstv. forsætisráðherra virtist ekki hafa bein til þess. Og hæstv. forsætisráðherra virðist heldur ekki hafa garnir til þess að koma hingað og flytja ræðu. Þá vil ég rifja það upp, herra forseti, að þrátt fyrir allt, þó að menn hafi fundið að því að hæstv. ráðherrar hafi ekki verið staddir hér við alla umræðuna, er það eigi að síður þannig að hæstv. landbúnaðarráðherra flutti hér prýðilega framsögu fyrir annars vondu máli og var að mörgu leyti nægilega ærlegur til þess að tala með þeim hætti að ágallar málsins skína í gegn. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sömuleiðis haldið hér ræðu og átt orðastað við ýmsa þingmenn í dag og verður að segja hæstv. fjármálaráðherra það til hróss að hann kom hér þó og varði þá stefnu sem birtist í þessu frumvarpi. Ég ætla að spyrja hæstv. forseta: Er það virkilega ætlunin að enda þessa umræðu án þess að hæstv. forsætisráðherra komi hingað og segi skoðun sína á þessu máli? Mér þykir það með ólíkindum ef svo verður og tel að það mundi mjög greiða fyrir lyktum þessa máls ef hægt væri að ná orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Þeir sem gefa kost á sér til forustu og eru valdir til forustu verða líka að leiða. Í þessu máli finnst mér hæstv. forsætisráðherra ekki hafa leitt.

Herra forseti. Ég átti hér í dag orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra og ég rifjaði það upp að 5. janúar síðastliðinn skrifaði hæstv. heilbrigðisráðherra undir yfirlýsingu ásamt hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Að vísu var það Illugi Gunnarsson, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem skrifaði undir það í stað hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, en í þeirri yfirlýsingu kemur algjörlega skýrt fram að partur af því að ljúka deilunni sem varð vegna verkfalls lækna var loforð af hálfu ríkisstjórnarinnar um að setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið. Það kemur skýrt fram í lið 2 í þessari yfirlýsingu, sem dagsett er 5. janúar, þar sem segir einfaldlega, með leyfi hæstv. forseta:

„Heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd að teknu tilliti til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti.“

Ef mannfjöldi og staðhættir ættu að hafa eitthvað sem kallar á einhverjar afleiðingar á það mundi ég segja að sennilega þyrfti þá meira fjármagn á einstakling en annars staðar á Norðurlöndunum. En hæstv. heilbrigðisráðherra hafði þá ósvífni til að bera í sínu síðara andsvari, þegar ég átti þess ekki kost að koma og leiðrétta hann frekar, að spyrja mig hvað heimildir ég hefði fyrir því að það vantaði eitthvað upp á það að hér væru framlög til heilbrigðismála þannig að þau næðu meðaltali á Norðurlöndunum.

Mér þykir það stappa ósvífni næst hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að tala með þessum hætti. Það liggur algjörlega skýrt fyrir að það þarf 33 milljarða til þess að ná meðaltalinu. Ég veit að hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur kynnt sér vel vegna þess að hann hefur farið í saumana á þessu, en ég les þetta hér í frétt úr Vísi og heimildin sem þar er vísað til er hvorki meira né minna en þau gögn sem hægt er að lesa í riti Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, með leyfi forseta, Health at a Glance: Europe 2014. Þar eru framlög ríkja í Evrópu til heilbrigðismála rakin og borin saman. Ef menn skoða þar tölur sést að það vantar gríðarlegar upphæðir til þess að framlög til heilbrigðismála á Íslandi séu jafnmikil og annars staðar á Norðurlöndunum.

Það finnst mér ákaflega mikilvægt að komi fram í ljósi þess að hæstv. heilbrigðisráðherra hafði þá ósvífni til að bera að tala með þeim hætti að ég færi hér með staðlausa stafi. Þá getur hæstv. heilbrigðisráðherra, ef hann vill hér síðar í þessum umræðum, reynt að bera til baka það sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu hefur sýnt. Nú ætla ég ekki að halda því fram að hægt hefði verið að ná þessu marki í einu stökki, en maður hlýtur að spyrja um það í ljósi þess að þetta var partur af sáttargjörð í kjölfar mjög erfiðra deilna á sínum tíma í heilbrigðiskerfinu að settir yrðu meiri peningar í heilbrigðiskerfið. Ég spyr þá, herra forseti: Hvar er þetta fé? Hvernig stendur á því að þegar svona yfirlýsing er gefin skulum við samt standa frammi fyrir erfiðri deilu við aðrar stéttir sem byggja upp okkar góða heilbrigðiskerfi? Þær eru ekki þess virði í augum hæstv. ríkisstjórnar að komast nálægt því að fá svipaðar kjarabætur og aðrir fengu, eins og læknar. Þess vegna sagði ég það hér fyrr í dag að sé þessi deila í hnút er það fyrst og fremst vegna þessarar ríkisstjórnar, hún á þetta mál allt saman með tómat og sinnepi.

Það var fyrsta verk hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann kom inn í ráðuneytið að gera samning við sérgreinalækna upp á 23% hækkun. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði við mig í dag að það væri rangt og ég féllst á það, þetta væri ekki alls kostar rétt, vegna þess að ég gleymdi að taka verðbætur inn í dæmið, þannig að hækkanirnar sem sérgreinalæknar fengu voru sennilega meiri en 23%. En hvað héldu menn að leiddi af því þegar þeir sömdu með þeim hætti? Að sjálfsögðu var það óhjákvæmilegt að læknar færu af stað. Þannig má segja að fyrsta verk hæstv. heilbrigðisráðherra hafi verið að taka ákvörðun, sem rak í reynd lækna til þess að fara í sams konar kröfu, að sjálfsögðu.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hjálpaði til við það. Hann gerði samning við framhaldsskólakennara, sem ég hélt því fram hér í dag að hefði verið upp á milli 25 til 30% hækkun, en ég get hins vegar fúslega viðurkennt það að maður hefur aldrei fengið að sjá þessar hækkanir, hvorki frá stéttarfélögum viðkomandi ellegar frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hver niðurstaðan var. En í ljósi þessa þurfa menn ekki að undrast það þó að aðrar heilbrigðisstéttir í heilbrigðiskerfinu fari líka af stað, að sjálfsögðu gera þær það.

Hvernig má það vera að hægt sé að gera risasamning að mati margra við læknana en það á ekki að gera svipað við aðra sem eru jafn mikilvægar stéttir til þess að halda heilbrigðiskerfinu gangandi? Það sjá það allir að það er mjög erfitt að koma fram með þeim hætti. Í því ljósi verð ég að segja að það voru ansi mikil mannalæti hjá hæstv. heilbrigðisráðherra í dag þegar hann barði hringum væddri hönd hér í púltið og sagðist krefjast þess að deiluaðilar notuðu tímann fram að 1. júlí til þess að ljúka þessu. Ja, hvar var atbeini hæstv. heilbrigðisráðherra? Er hann ekki fagráðherrann? Er það ekki hann sem ber ábyrgð á lífi mínu og annarra þegna ef við þurfum á sjúkrahúskerfinu að halda? Að sjálfsögðu. Hann er maðurinn með „pondus“ og afl og kraft. Hvar höfum við séð hæstv. ráðherra standa í púlti og tala um að hæstv. ríkisstjórn þurfi að standa við yfirlýsinguna frá 5. janúar með því að setja meira inn í heilbrigðiskerfið, eins og hann lofaði þá? Og hvar höfum séð hann skaka sínum skellum að hæstv. fjármálaráðherra? Við höfum ekki séð það enn þá. Eða getur hv. þm. Jón Þór Ólafsson, sem hefur setið hér undir allri umræðunni og sýnt mikinn áhuga og verið vakandi yfir velferð heilbrigðiskerfisins, sagt mér hvort hann hafi orðið var við að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi beitt sér af því afli sem við vitum sem þekkjum til verka hans hér á hinu háa Alþingi að getur verið mikið?

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli sé með rangindum farið. Ég geri mér algjörlega klárlega grein fyrir því að deilan er í hnút og það þarf með einhverjum hætti að leysa hana. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið hefði getað hreyft sig meira og hraðar, en það virtist ekki vera vilji til þess. En að ætla að leysa það með þessum hætti leysir ekki neitt og allra síst til frambúðar. Þegar ég segi að þetta mál sé af rangindum umbúið þá er ég að vísa til þess, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að ef ekki semst innan tiltölulega skamms tíma á að setja gerðardóm í málið. Þetta er eini gerðardómurinn sem ég man eftir í vinnudeilu sem er þannig að þeir þrír sem í gerðardómnum sitja koma allir frá öðrum aðilanum, ríkið skipar alla þrjá. Það er enginn frá þeim sem vinnur innan kerfisins, þeim sem er hinum megin víglínunnar í þessari deilu. Og það sem verra er þó er að það er beinlínis sagt að gerðardómurinn eigi að taka mið af tilteknum stærðum, eins og til dæmis efnahagslegum stöðugleika, sem er hárrétt, en sömuleiðis kjarasamningum sem hafa verið gerðir eftir 1. maí 2015. Bíddu, hvaða réttlæti er fólgið í því, herra forseti, að skipa gerðardómi beinlínis, sem á að búa til frið í deilunni, að taka ekki mið af öðrum samningum eins og til dæmis samningunum við framhaldsskólakennara, eins og til dæmis samningunum við lækna? Það er það sem ég á við þegar ég tala um að hér sé með rangindum farið.

Ég ætla líka að leyfa mér að halda því fram einungis miðað við það sem stendur hér í þessari greinargerð, og ég get kannski farið yfir í seinni ræðu minni, að það sé vafasamt að löggjöf sem á að ná yfir svona vítt svið, svona mörg félög, standist mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég sagði við hæstv. forseta að ég ætlaði að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út í það með hvaða hætti hann fer með minnisblað embættis landlæknis. Hann birtir úr því og segir hér á bls. 6, að í lok minnisblaðs landlæknis sé eftirfarandi, og svo kemur hann með það, en hann segir ekki eftirfarandi, með leyfi forseta.

„Ef til þess kæmi þurfa stjórnvöld að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um að samningaviðræðum verði haldið áfram“ — þ.e. eftir gerðardóm — „í þeim tilgangi að skapa viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins.“

Með öðrum orðum, landlæknir er að segja að ef málið verði leyst með þessum hætti þá skapi það ófrið í kerfinu. Og hann beinir því sérstaklega til okkar, (Forseti hringir.) en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem flytur málið sagði ekki frá þessu. Mætti ég með leyfi spyrja: Hvers vegna ekki?