144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þær upplýsingar sem ég fór með áðan getur hv. þingmaður lesið í þeirri skýrslu sem ég tilgreindi í ræðu minni og er gefin út af OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni. Hún heitir Health at a Glance og kom út í fyrra. En hann getur fengið skemmri skírn af þessari skýrslu með því að lesa frétt sem birtist í Vísi fimm dögum eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra gaf sína yfirlýsingu og ritaði nafn sitt því til staðfestingar, og fréttin ber titilinn: „Kostar 33 milljarða að ná meðaltalinu.“ Samkvæmt þeirri frétt þurfa heildarframlög ríkissjóðs til heilbrigðismála að hækka um 10 milljarða til þess að vera í samræmi við framlög annars staðar á Norðurlöndum.

Í fréttinni kemur fram meðal annars hversu mikil framlögin eru á hvern einstakling í evrum talið. Það kemur náttúrlega í ljós að eitt af því sem drífur upp meðaltal á Norðurlöndum er að Norðmenn, sem við berum okkur alla jafna saman við, verja mjög miklu þar til. Þetta skiptir máli að liggi fyrir. Ég er ekki að halda því fram að það eigi í einu stökki að jafna þetta bil en það sem ég er að gera er að nota þetta til þess að undirstrika að það stappaði nærri ósvífni og eiginlega beit hæstv. heilbrigðisráðherra höfuðið af skömm sinni með því að halda því fram í dag í andsvari við mig að ég færi með staðlausa stafi. Hann spurði: Hvar eru heimildirnar? Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra kunni ekki upp á sína tíu fingur það sem kemur út í opinberri skýrslu um heilbrigðismál á Íslandi og gefið er út af OECD, lykilstofnun sem við eigum aðild að.

Hv. þingmaður var með spurningu til mín um af hverju hæstv. ríkisstjórn hefði hugsanlega ekki efnt sín loforð. (Forseti hringir.) Þau eru nú nokkur en ég hef ekki tíma til að fara yfir það, enda veit ég það að hv. þingmaður þekkir þetta miklu betur en ég, sá sérfræðingur sem hann er orðinn í þessu málum.