144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ansi hrædd um að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér í þessu máli, að hér sé einfaldlega um það að ræða að störf kvenna séu minna metin þegar kemur að launum. Mér hefur fundist mega lesa út úr þeirri umræðu sem verið hefur að verið sé að höfða til góðmennsku og samvisku kvenna þegar kemur að því að tryggja heilbrigði og öryggi landsmanna en vinnuframlag þeirra sé ekki metið til launa til jafns við karla.

Vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er maður með mikla reynslu langar mig að spyrja hann hér í andsvari út í gerðardóm sem fjallað er um í 3. gr. þessa frumvarps. Fyrir mér lítur þetta út eins og þegar sé búið að skrifa það inn í lögin að hvaða niðurstöðu gerðardómur megi komast eða í það minnsta innan hvaða þrönga ramma gerðardómur megi komast að niðurstöðu. Þó svo að þar sé talið upp að hafa eigi hliðsjón af kjörum þeirra sem geta talist með sambærilega menntun eða störf eða vinnutíma eða ábyrgð þá má einungis líta til kjarasamninga sem hafa verið undirritaðir síðasta einn og hálfan mánuð.

Ég spyr: Er þetta venjan? Er venjan þegar verið er að setja lög á verkfall og fjallað er um gerðardóma að þá sé þeim gefin forskrift um (Forseti hringir.) að hvaða niðurstöðu þeir megi komast í sínum (Forseti hringir.) störfum?