144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef maður eimar innihald 3. gr. þá segir hún í reynd: Niðurstaða gerðardómsins á að vera eins nálægt niðurstöðum samninga á almennum vinnumarkaði um daginn eins og kostur er. Ég man aldrei eftir svoleiðis. Ég man eftir því og hef meira að segja tekið þátt í því við sérstakar aðstæður, a.m.k. einu sinni, að setja lög eftir tveggja ára samningslausa vinnudeilu sjómanna, en ég man aldrei eftir því að þau hafi verið með þeim hætti að það hafi beinlínis verið gefin forskrift um hvers konar samninga eigi aðallega að hafa sem fordæmi. Ég skal þó ekki þvertaka fyrir að það hafi gerst, ég man ekki eftir því. Yfirleitt er það þannig að hinar vísustu konur eða menn sem eru fengnir í gerðardóm komast að niðurstöðu út frá réttlæti og sanngirni sína hjarta. Þannig á það að vera. Það er alveg klárt hvað hér er að gerast. Þetta er auðvitað sorglegt.

Annað sem talað er um er að það eigi að gæta stöðugleika í efnahagsmálum. Öll erum við sammála því, en herra trúr, hér er verið að skrifa þetta inn í lög þremur dögum eftir að hæstv. fjármálaráðherra ýtti undir nýtt væntingafyllirí hjá íslensku þjóðinni með því að lofa henni fram í tímann skattalækkunum. Hann kaus til þess sama dag og seðlabankastjóri nánast lofaði eða hótaði eftir atvikum vaxtahækkunarhrinu til þess að hemja þensluáhrif. Þetta sjáum við gerast. Þetta er ótrúlegt. Þessar þverstæður í málflutningi ríkisstjórnarinnar koma mér á óvart. Lengi vel hélt ég að Sjálfstæðisflokknum væri treystandi til þess að vera ekki með svona málflutning, kannski af því að ég er svo bernskur, en Sjálfstæðisflokkurinn er að bregðast öllum mínum vonum.