144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason farinn að telja í þingsal aftur.

Við sátum á fundi hér áðan sem var mjög ánægjulegur, ekki ánægjulegur kannski en upplýsandi. (Gripið fram í: Gott.) (Gripið fram í: Hann hefði þurft að vera á honum líka.) Já, ætli það hefði ekki verið gott að viðkomandi þingmaður hefði verið það og hæstv. ráðherra sem hér stendur á kantinum og bíður væntanlega eftir að málinu ljúki, þ.e. 1. umr. En auðvitað er það óboðlegt að fólk hagi sér með þessum hætti. Þetta vekur upp í manni þá tilfinningu þegar menn fóru að grilla á kvöldin hérna (BirgJ: Nákvæmlega.) eftir að gleðinni lauk. Það er svoleiðis tilfinning sem verið er að bjóða fólki upp á. Ég er ekki alveg sannfærð um að hjúkrunarfræðingar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafi hreinlega haft efni á því að fara á landsleikinn en það kæmi mér heldur ekki á óvart þótt hinir aðilarnir sem hér er um rætt hafi fengið boðsmiða. En það er annað mál.

Mér finnst það óviðeigandi að hér sé farið fram á kvöldfund. Þetta er grafalvarlegt mál sem verið er að ræða. Það er verið að taka af verkfallsréttinn og miklu meira en það, og það á eftir að koma í ljós á morgun væntanlega á fundi allsherjar- og menntamálanefndar hversu alvarlegt þetta er. Ég er ekki viss um að allir þingmenn geri sér grein fyrir því hvers konar réttindi verið er að taka af fólki eins og þetta lítur út í hinum skrifaða texta.