144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa brotið reglur þingsins hér með því að hlaupa úr stólnum til að ná í frumvarpið.

Ég veit svo sem ekki alveg hverju ég á að svara þingmanninum af því að ég skynjaði ekki neina spurningu, en mig langar til þess að hvetja enn og aftur þingmenn til að vera opnir fyrir því að lagfæra þetta lagafrumvarp því að það er meingallað og jafnvel möguleiki á að í því felist einhver tilraun til vistarbanda um að þeir sem eru aðilar að þessari tilhögun gerðardóms geti ekki sagt upp störfum ef það eru margir í einni starfsstétt sem ætli sér að gera það.

Ég óska því einlæglega eftir því að hlustað verði vel á —

Þið talið svo hátt, guð minn góður. Af hverju gerir forseti aldrei athugasemd við allt þetta skvaldur inni í þingsal? (Forseti hringir.) Ha? Það er ekki hægt að hugsa fyrir ykkur.

Já, ég vil því hvetja allsherjarnefnd til að hlusta mjög vel á þá aðila sem þessi tilkomandi lög verða sett á. Ég hef heyrt af athugasemdum þeirra og ég held að það sé líka mjög brýnt að við sem þing bregðumst við því neyðarástandi sem þessi lög munu kalla fram, sér í lagi hjá heilbrigðisstéttinni. Það er nú þegar mjög brýnt að við komum líka með tillögur að því hvernig við ætlum að vinda ofan af þeim mikla vanda sem hefur verið að byggjast hér upp í ár.