144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar. Í fyrsta lagi að hann teldi ekki vera almannahagsmuni fyrir hendi í þessu máli. Ég vil þá spyrja þingmanninn, af því að það liggur fyrir niðurstaða og mat landlæknis og fleiri að það séu líf og limir í hættu, jafnframt að varanlegur skaði á heilbrigðiskerfinu til mjög langs tíma gæti verið afleiðingin af þessu og mér finnst ótrúlegt ef menn telja að við þessar aðstæður séu ekki almannahagsmunir í húfi: Hvenær geta þeir almannahagsmunir yfir höfuð verið fyrir hendi?

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði jafnframt að þó svo að menn litu á að það væru almannahagsmunir í húfi teldi hann þetta ekki skynsamlega lausn, og bætti við: Ef það kostar verðbólgu að hækka laun þessa fólks í BHM, (Gripið fram í.) verður bara að hafa það.

Hvernig nálgast menn almannahagsmunina? Það skiptir alla þjóðina máli að verðbólga sé í lágmarki. Og allir vita það jafnframt, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, að verðbólga mun ekki bæta kjör þess fólks sem er að lama heilbrigðiskerfið til þess að fá betri kjör. Mér er algjörlega óskiljanlegt að menn geti nálgast þetta svona. Ég get alveg skilið að menn hafi þá skoðun að það eigi að hækka laun þessa fólks umfram aðra (Forseti hringir.) og þá gera minna fyrir hina. Gott og vel. En almannahagsmunirnir eru ljósir.