144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði: Ef það kostar smáverðbólgu þá verður bara að hafa það. Ég stend við það. Verðbólga er auðvitað ekki föst stærð, það er munur á 1% verðbólgu og 10% verðbólgu og 100% verðbólgu, alveg eins og með skatta. Ég hefði alveg eins getað sagt: Ef það kostar einhverjar skattahækkanir þá verður bara að hafa það. Og hv. þingmaður hefði getað tekið nákvæmlega sömu ræðu hér og sagt: Já, en hærri skattar, það kemur niður á öllum. Já, en smáskattahækkun er ekki það sama og mikil skattahækkun, smáverðbólga er ekki það sama og há verðbólga. Ég veit alveg hvað verðbólga gerir samfélaginu en það stendur eftir að Íslendingar upp til hópa í öllum flokkum af báðum kynjum, öllum kynjum öllu heldur, og á öllum aldri vilja setja heilbrigðiskerfið í fyrsta sæti. Við erum ekki að gera það. Ég lít svolítið á það sem staðreynd, virðulegi forseti, og ef það kostar okkur smáskatta þá verður að hafa það. Ef það kostar okkur smáverðbólgu þá verður bara að hafa það, já.

Vel á minnst, verðbólgan. Ég hefði betur haft meiri tíma til þess að fara út í verðbólguþáttinn í þessu líka. Nú vill svo til að þessi ríkisstjórn hefur hafnað Evrópusambandinu alfarið og virðist ekki ætla að íhuga annan gjaldmiðil en íslensku krónuna. Ég hef nefnt það hér áður að ef það sem fylgir þeirri hugmynd að halda í íslenska krónu, reyna að halda í þessa myntstefnu er að passa það að ákveðnir hópar í samfélaginu fái aldrei næga launahækkun, þá er það afleit peningastefna. Því miður hef ég ekki tíma til þess að ræða það hér af neinni alvöru, kannski kemur það upp í annarri umræðu. En þetta kemur alltaf upp þegar talað er um launahækkanir á Íslandi. Það má ekki hækka launin vegna þess að þá fer verðbólgan af stað. Það er vegna krónunnar að mínu mati og ég held að mati hv. þingmanns líka, hann leiðréttir mig ef rangt er með farið hjá mér. En við getum ekki alltaf notað það sem afsökun fyrir því að hækka ekki laun. Við megum það ekki vegna þess að þá segjum við að sama skapi að við ætlum ekkert að hækka lægstu laun.