144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þetta var sameiginleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar enda sameiginlegt frumvarp allra ráðherra og varðar ýmsa þætti samfélags okkar.

Það er einfaldlega þannig að menn hafa rætt talsvert mikið um aðferðafræði um kjarasamninga. Ég hygg að flestir séu sammála um að sú aðferðafræði sem við höfum horft upp á hér upp á síðkastið sé ekki nokkuð sem við viljum sjá þróast enn lengra í þá átt. Menn hafa talað talsvert mikið um að horfa á hið norræna módel, reyndu það í fyrra. Í ágætum fréttaskýringum Spegilsins fyrir einhverjum vikum var talað við bæði danska og norska kollega sem lýstu því með hvaða hætti þetta er gert. Þar finna menn fyrst út úr því hvað samkeppnishæfni landsins getur skaffað í tekjur, hvort þær muni hækka eða hvort þarf að lækka þær. Danir komust að því að lykilatriðið væri að verja störf. Út frá því semur síðan almenni markaðurinn og síðan ári seinna kemur opinberi markaðurinn og fær 80% af því sem menn hafa samið á almenna markaðinum. Þeir lækka heldur ekki eins mikið og hinir. Daninn sagði að almenni markaðurinn, samkeppnishæfi markaðurinn, yrði að leggja línuna. Það má aldrei verða þannig að opinberi markaðurinn verði sá sem drífur fram launabreytingar í landinu.

Ég býst við að flestir séu sammála um þessa aðferðafræði en það er langur vegur frá því að við séum komin þangað. Það að þurfa að setja lög á verkfall er allt of þungbært. Maður vonast auðvitað til að samningsaðilar nýti þann tíma sem nú skapast til að finna lausn. Það er búið að reyna að semja í tíu vikur. Það gekk ekki. Ríkisstjórnin lagði til að sett yrði upp sáttanefnd. Aðilar höfnuðu því. Við svo búið getum við ekki horft á heilbrigðiskerfið í þeirri stöðu sem landlæknir hefur lýst því og aðra þætti samfélagsins. Þess vegna (Forseti hringir.) er gripið til þessa tímabundna neyðarúrræðis í þeirri von að sjálfsögðu að menn finni lausn á þeim vanda innan þess tíma sem þeir hafa.