144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[22:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvorugur okkar hv. þingmanns er að gera lítið úr þessum hópum, en ég tók það sem dæmi um þær brýnu nauður sem reka til lagagjörnings af þessum toga. Ég sagði: Er nægilega vel um hnúta búið til að íslenska ríkið hafi varnir ef mál verður hafið fyrir til dæmis Mannréttindadómstólnum?

Hv. þingmaður hefur getið sér það orð hér í þessum sölum að hann er eins konar lagatæknilegur hæstiréttur hér og ég tel að enginn standi honum framar í þessum efnum. Hann bjargaði þinginu heldur betur frá hneisu á sínum fyrstu fjórum vikum hér þegar ríkisstjórnin kom, sem frægt var, fram með mál til að breyta framlagningu fjárlaga. Hún gerði það með þeim hætti að það var komið í gegnum 2. umr. þegar hv. þingmaður rak augun í að ef við hefðum samþykkt það væri ekki hægt að kveðja saman þing næstu þúsund árin, svo hann er nú ekki lítils virði, hv. þingmaður, og er kannski ástæðan fyrir því að við erum hér í kvöld.

En hv. þingmaður hefur bara sagt það og kveðið upp úr með að það sem ég var að segja er rétt. Hann er efins um að þetta standist að öllu leyti.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann. Í greinargerð með þessu frumvarpi er til dæmis verið að réttlæta það að binda enda á verkfallsaðgerðir hjá sýslumannsembættum vegna þess að það gæti komið niður á réttindum annarra og gæti haft neikvæð áhrif á ráðstöfun eigna viðskipta framleiðslu. Sýslumannsembætti? (Gripið fram í.) Já, það er það, en það er ekki þannig að líf og limir liggi við. Þá ætla ég að benda hv. þingmanni á, sem þekkir þetta örugglega miklu betur en ég, að mál var reist fyrir mannréttindadómstóli vegna þess að olíuverkamenn á borpöllum í Noregi fóru í verkfall. Niðurstaðan varð sú að jafnvel þó að um mjög mikinn efnahagslegan þrýsting væri að ræða sem mundi geta skaðað Noreg og jafnvel fjármögnun heilbrigðiskerfisins var tekið fram í dómnum að þá væri ekki þar með sagt að það væri réttlætanlegt að slíta verkfalli með lögum, hvað þá hjá sýslumannsembættum.