144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta mál sem snýst um það að setja lög á þau verkföll sem rædd voru hér í gær, verkföll félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Við áttum stuttan fund í nefndinni í gærkvöldi en tókum gesti í morgun og fengum ágætisyfirlit yfir stöðu mála. Mat meiri hluta nefndarinnar er að leggja það til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt, að undanskilinni tillögu sem birtist í nefndarálitinu um að bætt verði við á eftir orðunum „Félagsráðgjafafélag Íslands“ orðinu Fræðagarður sem hafði fallið niður fyrir einhvers konar mistök við gerð frumvarpsins.

Efnislega fórum við vel yfir málið í gær. Mest var rætt um það í nefndinni hvernig 3. gr. í frumvarpinu er en það er alveg ljóst, miðað við efni hennar þar sem fjallað er um ákvörðun gerðardóms, að meginskilyrðið sem gerðardómurinn hefur í huga við ákvarðanir um laun félagsmanna er að hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Síðan er tiltekið að eftir atvikum eigi að líta til kjarasamninga sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015. Skýringin á því viðmiði er að það sé þá miðað við þá samningalotu. Síðan á jafnframt að horfa til almennrar þróunar kjaramála hér á landi og gæta að stöðugleika efnahagsmála.

Þetta er það atriði sem helst var rætt í nefndinni, auk þess með hvaða hætti gerðardómurinn er skipaður sem meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að hrófla við, enda hefur sá háttur verið hafður á þegar fleiri en eitt félag eru undir að þrír aðilar tilnefndir af Hæstarétti hafa fengið þetta verkefni.

Þá ber þess að geta, og við áréttum það sérstaklega í nefndarálitinu, að aðilum er að sjálfsögðu enn heimilt að semja og hafa til þess ákveðinn tíma. Jafnframt er aðilunum heimilt að leggja tillögur inn í gerðardóminn um ákveðin atriði ef um þau semst þannig að enn geta aðilar komið sér saman um með hvaða hætti gengið verði frá samningum.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur, Willum Þór Þórsson, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.