144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að ef ég teldi þetta ekki nauðsynlegt væri ég ekki hér að mæla fyrir þessu nefndaráliti. Við fengum til okkar gesti í nefndinni í morgun. Við þekkjum umræðuna sem hefur átt sér að undanförnu. Við fengum meðal annars í morgun til okkar fulltrúa frá Landspítala, heyrðum í þeim á Sjúkrahúsinu á Akureyri og fengum til okkar landlækni. Við þekkjum og höfum heyrt yfirlýsingar landlæknis um stöðu mála. Grafalvarlegur vandi blasir við okkur og það er ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram. Það er ástæðan fyrir því að ég stend hér og mæli fyrir þessu nefndaráliti og mun samþykkja lög á þetta verkfall. Það er ekki vegna þess að það sé eitthvert létt verk eða eitthvað sem mann langar til að gera, það er einfaldlega það sem er ábyrgt og nauðsynlegt að gera, því miður. Eins og fram kemur í frumvarpinu er þó enn hægt að semja.