144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hlutverk nefndarinnar að kynna sér frumvarpið, meta forsendur þess og það höfum við gert. Grafalvarleg staða blasir við landsmönnum öllum, bæði (Gripið fram í.)þeim sem starfa á sjúkrahúsunum og eins sjúklingum sjálfum og þeim sem þurfa að sækja sér þjónustu. (JÞÓ: Viltu svara spurningunni.) Ég tek ekki þátt í því að velta upp einhverjum popúlískum spurningum um hversu marga milljarða hv. þingmaður vill að ég segist vilja setja inn í (JÞÓ: Ég er að spyrja um nauðsynina.) heilbrigðiskerfið. Verkefnið á borðinu er það að skera úr um hvort setja þurfi lög á þessi verkföll. Ég stæði ekki hér í dag að mæla fyrir þessu nefndaráliti nema vegna þess að ég hef sannfæringu fyrir því að það er ekkert annað sem blasir við nú en að gera það, en hvet jafnframt aðila til að halda áfram að reyna að semja.