144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:11]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Nú er það svo að í 3. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur hvað gerðardómur skal hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína þá eru tilgreind þrjú skilyrði. Eins og áréttað er í áliti meiri hlutans þá er meginskilyrðið það sem þar kemur fram að ákvarðanir um laun félagsmanna og önnur starfskjör skuli gerðardómur „hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma, ábyrgð og,“ — þetta er sem sagt meginskilyrðið, önnur skilyrði eru svo „eftir atvikum,“ — tökum eftir því — „kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi.“ Og stöðugleika efnahagsmála. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort þetta rammi ekki inn bæði tímann sem hugsanlegur gerðardómur geti náð til og hvað er meginatriðið?

Hins vegar vil ég koma inn á það að eins og fram kemur í frumvarpinu getur gerðardómur tekið tillit til þeirra atriða sem viðsemjendur koma sér saman um allt tímabilið sem gerðardómur starfar og hvort það gæti ekki hugsanlega tekið til sérstakra ákvæða er varðar einstök stéttarfélög?