144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Kjararéttindi hafa áunnist vegna mikillar baráttu forvera okkar um áratugaskeið. Þess vegna horfi ég með hryllingi á það hvernig þessi réttindi eru afnumin, eitt af öðru. Nú er verið að hefja vegferð til að afnema verkfallsrétt hjá opinberum starfsmönnum. Það eru tíðindi og mikið bakslag. Þessi vegferð er hafin og það er ljóst að ef ekki á að koma til móts við þær breytingartillögu sem minni hlutinn hefur lagt til, til að draga úr reiðarslaginu, verður erfitt að vinda ofan af þeim tíðindum sem hér eru á ferð og því ófremdarástandi sem skapast. Ljóst er að ríkið hefur dregið lappirnar, þegar kemur að raunhæfum tilboðum eða tillögum um það hvernig leiða mætti þessi mál til lykta áður en til þessa úrræðis er gripið, þ.e. ef fulltrúar ríkisins hafa yfir höfuð haft fyrir því að boða til samtals.

Mig langar, af því að mjög margt af því sem ég hefði viljað segja hefur komið fram í ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, að lesa hér yfirlýsingu sem kom í gær frá BHM og FÍH, með leyfi forseta:

„Í dag mun Alþingi fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um frestun verkfalla aðildarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þessi afskipti stjórnvalda af verkfallsrétti og samningsfrelsi stéttarfélaga er alvarlegt inngrip í lögmæta starfsemi stéttarfélaga. Í 74. gr. stjórnarskrár Íslands og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu felst almennt bann við afskiptum stjórnvalda og löggjafans.

Samþykki Alþingi frumvarpið eru aðildarfélög BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sem samningsaðilar svipt þeim þvingunarúrræðum sem stéttarfélögin hafa til að knýja á um samningsniðurstöðu. Með frumvarpinu er ríkið sem annar deiluaðili að leggja til lög á kjaradeilur sem það á sjálft aðild að. Undirstrikar það enn og aftur að ríkið hefur frá upphafi átt í sýndarviðræðum.

BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetja alþingismenn til að samþykkja ekki frumvarp um verkfallsaðgerðir og beina því til stjórnvalda að koma af alvöru að samningaborðinu.“

Það er alveg ljóst að Alþingi mun samþykkja þessi lög og vil ég skora á stjórnvöld að sýna í verki að þetta hafi ekki einungis verið sýndarviðræður við stéttarfélögin og koma með einhver tilboð en þvinga ekki þessi félög undir gerðardóm. Ég á svo sem ekkert von á að á þá áskorun mína verði hlustað frekar en fyrri daginn þegar maður kemur með einhverjar tillögur að úrbótum, því að hér búum við að sjálfsögðu við meirihlutaræði.

Forseti. Ég hef fengið mjög mörg bréf frá hjúkrunarfræðingum undanfarið. Eitt bréf, sem ég fékk í gærkvöldi, var mjög sláandi og snart mig mjög. Ég ætla að lesa það bréf fyrir þingheim. Ég vona að það snerti við þingmönnum á sama hátt og það snerti við mér, því að nú er einhvern veginn búið að snúa öllu á hvolf og látið líta út fyrir að hjúkrunarfræðingum sé ekki annt um mannslíf — sem er skandall, að setja þetta svona upp, það er skandall, forseti. Ég breytti bréfinu eilítið til þess að ekki væri hægt að persónugreina þann ágæta hjúkrunarfræðing sem skrifaði mér í gær. Með leyfi forseta:

„Ég hef staðið vaktina fyrir utan Alþingi í allan dag, lagði inn uppsagnarbréf svona symbolískt á tröppurnar og mun leggja inn uppsagnarbréf nú á mánudag með sorg í hjarta. Það ríkir mikil sorg í okkar stóra og góða hópi, hópi hjúkrunarfræðinga, eftir að hafa heyrt hvert planið er. Það eru margir nú þegar búnir að segja upp. Enn fleiri munu gera það í næstu viku því að nú er engin von um að smáskynsemi sé í stjórnvöldum heldur komin upp reiði og sorg. Nú er tekið við svokallað plan B eða jafnvel C.

Það er alltaf þannig, þegar við heilbrigðisstarfsfólk erum að fást við bráðaatvik og bráðveika sjúklinga, að við þurfum að bregðast skjótt við og gerum við það af fagmennsku og öryggi. Við erum vön því að takast á við erfiðar aðstæður, sem nú eru svo sannarlega uppi. Sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur með áratugastarfsreynslu segir það sig sjálft að ég er vön því. Ég tekst á við veikustu sjúklinga landsins sem krefst gífurlegrar sérþekkingar. Við erum að tala um sjúklinga sem þurfa tímabundið á að halda öndunarvélum, nýrnavélum, heiladrenum, þrýstimælum, brjóstholsskerum, vökvum og lyfjum, til að halda til dæmis blóðrás gangandi, svæfingu og verkjastillingu og svo mætti lengi telja. Þarna liggja fárveikir sjúklingar eftir brunaslys, drukknun, áverka, aðgerðir á heila og fleiri líffærum, fullorðnir og börn. Ættingjar, þeir eru stór hluti af okkar hjúkrun og umhyggju.

Það segir sig sjálft að það tekur mörg ár að byggja upp sérhæfðan mannauð á slíka deild. Ég hræðist mjög að margir gjörgæsluhjúkrunarfræðingar muni íhuga breytingar og uppsagnir og mínar stærstu áhyggjur eru, fyrir utan að þurfa að flýja landið mitt, að ekki verði til dæmis lengur hægt að halda uppi gjörgæsluhjúkrun ef viss prósenta segir upp og leitar á önnur mið. Ég tel að nú þegar séu minnst 30 til 50% deildarinnar með starfsleyfi í Noregi, Danmörku og víðar.

Til að ítreka hollustu okkar við LSH og sjúklinga okkar nefni ég að við hjúkrunarfræðingar stofnuðum styrktarfélagið Von, félag til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildar LSH í Fossvogi, árið 2008, þar sem okkur fannst aðstandendaherbergi fyrir skjólstæðinga okkar til skammar. Við höfum, með söfnun styrkja og fleira, haldið því uppi með kaupum á mublum og fleiru. Einnig veitum við reglulega styrki til sjúklinga. Ég er að tala um að við höfum safnað saman milljónum í frítíma okkar með glöðu geði. Já, svo mikið um það.“

Ég vil taka það fram, forseti, að þessi manneskja hafði ekki hugmynd um að ég mundi lesa þetta bréf og er ekki að reyna að berja sér á brjóst fyrir góðverk. Mig langar að biðja ykkur, þingmenn meiri hlutans, að hlusta á það sem stóð í þessu bréfi, því að það eru alvarleg tíðindi. Og aðgerðir ykkar hér í dag munu eingöngu auka á vandamálið en ekki leysa það. Ég hef mjög þungar áhyggjur af því sem verið er að gera og ekki bara við kerfið heldur við allt það góða fólk sem vinnur í heilbrigðiskerfinu okkar. Hvað erum við að gera því? Hvers konar vanvirða er þetta? Ég skora á ykkur, þingmenn meiri hlutans, þið sem farið með meirihlutavaldið, að koma til móts við þær breytingartillögur sem ég veit að þessi félög hafa óskað eftir að við leggjum til og þið voruð ekki tilbúin til þess að bregðast við í morgun; ég vona að þið skoðið huga ykkar áður en þið greiðið atkvæði og fellið breytingartillögur okkar.