144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé sjálfsblekking ef fólk, á þessum dapurlega degi, sem er þó ósköp fallegur úti, heldur að það sem tekið er fram í 3. gr. frumvarpsins um tiltekinn tíma, séu ekki forsendur gerðardóms til samningsumleitana. Dagsetningin væri ekki þarna nema af því að henni er ætlað að ramma inn ákveðna samninga sem viðmið, það er bara þannig.

Ég átta mig ekki á því ef þingmenn meiri hlutans telja að aðrir samningar sem opinberir starfsmenn hafa gert séu undir, eins og kom fram á fundi nefndarinnar, m.a. í morgun, þegar horft er til þess að gera samninga. Ef fólk telur sér trú um að setningin um að gerðardómur skuli við ákvarðanir um önnur starfskjör þeirra, með leyfi forseta, „hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist“, ef fólk telur að hún dugi til, þá skil ég ekki af hverju þessu er ekki breytt, af því að þá skiptir dagsetningin augljóslega engu máli. Ég held því, virðulegi forseti, að fólk sé í einhverjum sjálfsblekkingarleik hvað það varðar eins og kom fram í andsvari hjá hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur áðan. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi.

Fulltrúar bæði atvinnuvegaráðuneytis og fjármálaráðuneytis í morgun töluðu um hið margfræga höfrungahlaup, þ.e. að þegar ein stétt fær tiltekna launahækkun, sem er umtalsverð, sé ekki hægt að aðrar stéttir fái slíkt hið sama því að þá fari hér allt á flot. Það kom líka fram að ekki er, samkvæmt ríkisfjármálaáætlun og öðru því sem liggur undir, vilji til annars en 3,5% launahækkunar. Ég sé því ekki annað, virðulegi forseti, en að ekki bara hafi viðræðurnar verið sýndarviðræður heldur sé þessi gerð líka sýndarveruleiki. Hún er til þess að koma ríkisstjórninni og samninganefnd ríkisins út úr þessum aðstæðum, menn firra sig ábyrgð, það er einhver annar með þetta, gerðardómur er með þetta, Hæstiréttur er búinn að skipa einhverja í gerðardóm þannig að við þurfum ekki að taka ábyrgð á þessu. Þannig horfir þetta við mér eftir samtöl við fólk og afar góðar umsagnir sem við fengum. Ég get ekki skilið þetta með öðrum hætti og mér þykir það mjög dapurt, því að það hefur komið fram að þrátt fyrir að landlæknir lýsti mjög erfiðu ástandi þá hefur hann jafnframt sagt: Þessi aðgerð leysir ekki vandann. Atgervisflótti úr þessum stéttum er gríðarlegur og hefur verið og hann heldur áfram. Það er ekki farið inn í kjarna málsins, það vantar meiri peninga, það er alveg augljóst. Menn geta ekki sagt að hér verði reynt að lenda málum ef þeir eru ekki tilbúnir til neinna breytinga umfram það sem þeir hafa boðið, það er ljóst.

Það felst í því ójafnræði að annar aðilinn, í þessu tilfelli ríkið, geti leyft sér það að setja lög gagnvart sínum viðsemjanda, þvingað viðkomandi upp að vegg af því að hann á ekki neinn kost. Ef maður er í samningaviðræðum við ríkið þá á maður engan kost vegna þess að ríkið getur alltaf stillt manni svona upp við vegg. Þetta er ekki góður farvegur fyrir samningaviðræður og við þurfum einhvern veginn að komast út úr þessu.

Ég hef því miður afskaplega illan bifur á þessari lagasetningu, og náttúrlega yfirleitt, og við í minni hlutanum höfum lagt til að frumvarpinu verði vísað frá. Við teljum að það beri að halda áfram viðræðum, en auðvitað þarf ríkið, eins og ég sagði áðan, að koma fram með eitthvert viðbótarfjármagn til þess að það sé framkvæmanlegt. Málum er stillt þannig upp af hálfu ríkisins að það sé allt eða ekkert, menn séu ósveigjanlegir og vilji bara alla launahækkunina, mér fannst það skína í gegn í málflutningi fjármálaráðuneytisins í morgun, það var eins og Bandalag háskólamanna og hjúkrunarfræðingar væru ósveigjanlegir þegar kæmi að launahækkunum. Það er ekki svo, alla vega ber fólki þá ekki saman um það. Tekið var fram að byrjunarlaun sérfræðings væru nákvæmlega 267.850 kr., hafi ég tekið rétt eftir, en það var eins og BHM vildi fá byrjunarlaunin upp í 400 þús. kr. á morgun. Ég held að menn hafi ekki lagt sig nægjanlega mikið fram til þess að reyna að miðla málum, til þess að ná utan um innihald þess sem beðið var um. Innihaldið er meðal annars það að meta menntun til launa og það er tíundað mjög ítarlega í áliti Bandalags háskólamanna hvernig fólk sér það fyrir sér, hvað þurfi að taka inn. Og skyldi engan undra að fólk með margra ára háskólamenntun vilji fá það metið að einhverju leyti til launa.

Það er líka mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta frumvarp snýr ekki bara að heilbrigðisþjónustunni. Það eru mörg félög þarna undir og eins og var rakið áðan eru það líka félög sem ekki hafa boðað verkfall, það er verið að taka af þeim réttinn. Það er nánast verið að setja fólk líka í vistarbönd með því sem hér er farið fram með og það er alvarlegt.

Það er dapurlegt að þurfa að standa í þessum sporum og vita það að maður getur ekki spyrnt við fótum. Og ég tala nú ekki um það fólk sem stendur í samningaviðræðum. Við hér erum þó bara að að reyna að spyrna við fótum en stöndum ekki í því að vera í verkfalli. Þetta bitnar ekki á okkur og okkar fjölskyldum. Við fáum útborgað, en stór hluti þessara stétta, eins og ljósmæður, hafa ekki fengið útborgað nema mjög lítinn hluta launa sinn þrátt fyrir að vinna fulla vinnu. Þetta er afar óeðlilegt fyrirkomulag að svo mörgu leyti.

Virðulegi forseti. Mér finnst meiri hlutinn ekki hafa tekið við þeim upplýsingum sem fram komu m.a. á fundinum í morgun, fyrir utan að þetta var eiginlega sprengdur tími, við hefðum auðvitað þurft að ræða þetta mun betur og lengur. En þarna komu fram mörg sjónarmið sem snúa að mannréttindum og almennu félagafrelsi og mörgu sem lýtur að því sem vert er að skoða og auðvitað hljóta þessi félög að láta á það reyna fyrir dómi að þetta haldi, að hægt sé að svipta líka þá rétti sem eru ekki einu sinni í verkfalli eða hafa boðað verkföll. Og það sem mér finnst langsamlega mest athugunarvert, fyrir utan auðvitað mannréttindi og stjórnarskrárvarinn rétt sem er algjörlega fyrir borð borinn að mínu mati með frumvarpinu, varðar það hvort aðrir samningar sem opinberir starfsmenn hafa gert séu undir. Þeir sem ætla að samþykkja þetta frumvarp á eftir hljóta að spyrja sig hvort þeir trúi því innst inni í ljósi þess að heilbrigðisráðherra segir í umræðum í gær að hann sjái ekkert sem gæti orðið til þess að breyta stöðunni, en þá var hann ekki að miða við að það væru sett lög, heldur bara eins og staðan var. Bíddu nú við, ef hann ætlar ekki að gera neitt, hann ætlar ekki bæta neinu í eða gera neitt til þess að liðka fyrir, hvað er hann þá að segja? Er hann þá að segja að hann ætli að leggja langtímakjarasamninga í hönd gerðardóms? Ég skal ekki segja um það, virðulegi forseti, en það lítur að minnsta kosti út fyrir það.

Þegar verið er að bera saman svo ólíka hópa eins og fólk á hinum almenna vinnumarkaði og hinum opinbera, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson fór ágætlega yfir í gær, þá bið ég fólk líka að hugsa um það að opinberir starfsmenn hafa ekki sama tækifæri til margra hluta vegna þess að lögin um þá eru mjög stíf. Þeir hafa ekki endilega tækifæri til þess að mæta í starfsmannaviðtal og biðja um hærri laun, það er alveg ljóst. Það er allt bundið í tilteknum samningum. Ég held að ef fólk vill taka mið af einhverju norrænu módeli þá þurfi að taka hlutina alla leið. Það er ekki hægt að velja sér að við gerum stundum sumt og stundum ekki, þannig að þegar fjármálaráðherra talar um að fara slíkar leiðir þá þarf hann að taka allt með í pakkann, samanber það sem heilbrigðisráðherra hefur líka sagt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala einhver ósköp um þetta, en mér er bara mikið niðri fyrir, mér finnst það dapurleg stund að þurfa að vera í þessum sporum. Ef fólk trúir því virkilega, eins og ég sagði áðan, að 3. gr. innihaldi tækifæri til að miða við samninga opinberra starfsmanna sem gerðir hafa verið á síðustu missirum þá er það sjálfsblekking, það er alveg á hreinu, af því að þá væri ekki verið að setja þessa dagsetningu inn. Ég held því að fólk þurfi aðeins að skoða sinn gang ef það er virkilega sannfært um það og legg til, ef fólk er sannfært um það, að menn greiði tillögu okkar atkvæði sem felur í sér þá breytingu að taka út dagsetninguna og setja inn „seinustu missiri“. Þá erum við örugglega með það klappað og klárt en ekki háð einhverjum túlkunum, því það kemur hér augljóslega fram að fólk túlkar þetta á mismunandi hátt.

Ég vil ítreka að hér er um að ræða stéttir, ekki bara innan heilbrigðiskerfisins, þar sem fólk hefur starfað undir miklu álagi til langs tíma og þar sem hefur verið undirmannað. Þeirra velferð er sjaldan rædd í sjálfu sér, þótt við vitum að það er búið að vera erfitt ástand þar eins og víða annars staðar í samfélaginu, en það er einhvern veginn aldrei til umræðu. En það ber auðvitað að hugsa um það eins og hvað annað. Við viljum ekki að fólkið okkar brenni út í störfum, við viljum að það sé vel borgað, hafi góðan aðbúnað til þess að geta sinnt hinum veiku. Það hlýtur alltaf að vera það sem við stefnum að. Þetta er ekki leiðin til þess, virðulegi forseti.