144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni kærlega fyrir ræðu hans. Þar var víða komið við og langar mig að byrja á að geta þess, þar sem hann minntist á flugvirkjana, að líka var talað um flugmennina í starfi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun og nefnt að bæði átti að koma til lagasetningar á flugvirkja og áður en flugmennirnir áttu að fara í gerðardóminn var samið, þannig að þær lagasetningar komu hreyfingu á kjarasamningana.

Ég tek undir að þetta eru mjög þung skref og ekki góður dagur að þurfa að setja þessi lög, en því miður tel ég þau nauðsynleg miðað við hvernig staðan er. Vonandi kemst hreyfing á þetta, af því að það er alveg skýrt samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna að aðilar hafa tíma allt til 15. ágúst til að ljúka kjarasamningi áður en gerðardómurinn tekur til starfa. Við vonumst náttúrlega til að sá tími nýtist vel og aðilar nái alla vega saman um einhver atriði. Það er líka opnað fyrir það.

Hv. þingmaður kom inn á tekjuskattinn og skattalækkanirnar sem hafa verið gerðar og svo eru líka skattalækkanir í vændum samkvæmt kjarasamningum á almenna markaðnum. Er hv. þingmaður á móti þeim skattalækkunum eða telur hann þær ekki koma hjúkrunarfræðingum, sem ég held að teljist millistétt, til góða? Heildarlaun hjúkrunarfræðinga eru að meðaltali 625 þúsund þannig að þær skattalækkanir sem hafa verið nefndar ættu að koma þeim til góða og ættu að vera viss hluti af kjarabótinni, þótt að það sé kannski ekki hluti af kjarasamningunum. Ég vil spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans til þessa.