144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:00]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á móti skattalækkunum? Það er freistandi að segja nei en ég er á móti þeim eins og staðan er í samfélaginu í dag, vegna þess að ég lít á skatta í samfélaginu sem sáttmála. Til hvers eru skattar? Ég lít þannig á að skattar séu sáttmáli sem samfélagið gerir til að reka velferðarsamfélag. Ef við skattleggjum ekki fólk og fyrirtæki og annað getum við ekki rekið þetta batterí, það er bara þannig, það er svo einfalt.

Við sjáum til dæmis hvernig ástandið er í Kaliforníu. Viljum við byggja upp svoleiðis samfélag á Íslandi, þar sem við þurfum að klofa yfir heimilislaust fólk og fólk sem á við geðrænan vanda að stríða og býr á götunni? Er það samfélagið sem við viljum búa til hér? Nei. Þetta er kannski dálítið dramatískt hjá mér en það gæti alveg farið svona ef við höldum áfram á þessari braut.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni og er alveg sammála því að hægt er að lækka skatta þegar mikið góðæri er í samfélaginu. Ef við fengjum út úr auðlindunum okkar það sem við ættum að fá út úr þeim gætum við lækkað skatta. Eins og til dæmis orkuauðlindunum, hvað fáum við út úr þeim? Nú ætlum við að halda áfram að virkja. Og fyrir erlenda auðhringa sem flytja arðinn úr landi. Hvað fáum við út úr því? Ef við fengjum arð af auðlindunum og annað gætum við lækkað skatta, en nú er staðan önnur og samfélagið er í sárum eftir mikið hrun og ekki síst velferðarkerfið. Hv. þingmaður veit alveg sjálfur hvernig ástandið er úti í samfélaginu, það er mjög slæmt. Maður þarf ekki annað en að keyra norður í land og maður er í stórhættu við að keyra á vegunum.

Ég er á móti skattalækkunum eins og þær eru settar fram í dag, þótt vissulega komi eitthvað vel við mann. Skattalækkunin sem var gerð á sínum tíma (Forseti hringir.) var óveruleg hjá hverjum og einum en samt var hún 5 milljarðar.