144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Já, mér finnst að það hljóti bara að vera einhver mistök í þessu lagafrumvarpi að gera ekki ráð fyrir einhverjum tímaramma.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í eitt, því að það er svolítið skringilegt hvernig þetta er sett upp í mínum huga. Ef ég væri að semja við einhvern og sá hinn sami ákveður að setja lög á samningsmöguleikann, ákveðinn þrýsting — í þessu lagafrumvarpi er í rauninni búið að setja ramma utan um það hvað á að koma út úr þessu. Það eru alls konar stórfurðulegir hlutir í þessu eins og að taka eigi til einhvers konar stöðugleika, að það megi ekki riðla einhverjum stöðugleika. Hvaða stöðugleika? Hvernig á gerðardómur að geta mælt það? Og þetta er stóra vandamálið. Maður veltir því fyrir sér. Nú erum við með mjög flóknar aðstæður varðandi kjaramál. Á meðan við erum að tala núna er atkvæðagreiðsla um samninga hjá öðrum aðilum — ja, það er verið að tala um samninga sem var samið um fyrir félaga í verkalýðsbandalagi sem ekki er í opinbera geiranum. Ef við mundum koma með tillögu um að breyta þessu þannig að það yrði miðað við 1. janúar, þá mundi það setja þá samninga í hættu. Mér finnst þetta því vera svona nánast, ekkert bara nánast, mér finnst það frekar ljótt og gefur þessum félögum, BHM og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, mjög lítið svigrúm til að semja.

Ef hv. þingmaður væri í þessum aðstæðum á almennum markaði, að þurfa að semja við slíkar aðstæður, mundi hann telja að samningsstaðan væri þannig að hann ætti einhvern séns?