144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég held að ég ætti engan séns í þeim viðræðum. Og það kom náttúrlega fram í máli m.a. hæstv. forsætisráðherra að þeir væru að bíða eftir niðurstöðum frá almenna markaðnum, niðurstöðum úr samningaviðræðum þar. Það segir manni líka að verið er jafnvel að hafa fólk að fíflum með því að hafa það í einhverjum samningaviðræðum sem skipta engu máli. Það hefur náttúrlega komið fram áður í ræðustól og í ræðum sem voru haldnar í gær að Samtök atvinnulífsins væru búin að leggja línurnar um kjarasamninga.

Talað er um stöðugleika, ótrúlega leiðinlegt orð, stöðugleiki. Ég meina, það er alltaf talað um það þegar á að semja við sérstaklega þá sem eru með lægstu launin, og núna fólk í BHM og Félagi hjúkrunarfræðinga, ég held að það sé 4% af vinnuafli í landinu og þar af eru kannski bara 2% í verkfalli, að ef samið yrði við þetta fólk, alveg eins og með lægst launaða fólkið, þá fari hér allt á hvolf. Það var samið við kennara og leikskólakennara og fleiri í fyrra og við vitum að settir voru á annað hundrað milljarðar inn í kerfið í formi leiðréttingar, og hvað gerðist? Rauk verðbólgan upp úr öllu valdi? Nei, hún var í sögulegu lágmarki, búin að vera það síðasta ár. En þetta er í rauninni alltaf sama tuggan, að um leið og fólk ætlar að fara að berjast fyrir réttindum sínum og fá betri og mannsæmandi laun þá væri allt hér bara á heljarþröm.

Á sama tíma eru atvinnugreinarnar, eins og ég nefndi áðan, hreinlega að mala gull. Annað eins hefur bara ekki sést. Nei, þetta er alltaf sama staðan. Það er nóg til af peningum á Íslandi. Það sem þarf að gera er að skipta kökunni rétt, það er bara þannig. Henni er ekki skipt rétt og hefur aldrei verið. Það er það sem við eigum að einbeita okkur að þannig að allir geti lifað hér mannsæmandi lífi í sátt og samlyndi.