144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sem hv. þm. Páll Valur Björnsson sagði í lokaummælum sínum hér í andsvari, að það þyrfti að skipta kökunni rétt, sé akkúrat kjarni málsins. Við erum nefnilega búin að horfa upp á stjórnarstefnu sem hefur miðað að því að létta byrðunum af þeim sem mest hafa á meðan aðrir hafa setið eftir. Afleiðingin af því er ófriður. Við sjáum það um allan heim að það er að verða alveg gríðarleg misskipting. Þótt menn geti dregið fram dæmi um það að misskipting tekna sé minni á einhverjum ákveðnum tímabilum þá er ekki um það deilt að misskipting eigna er gríðarleg og er alltaf að aukast. Við slíkar aðstæður skiptir máli hvað ríkið gerir og hvernig við verjum okkar skattfé.

Ég verð að segja það alveg eins og er að það var gríðarlega erfitt á síðasta kjörtímabili að þurfa að vera jafnaðarmaður í ríkisstjórn sem þurfti að brúa 216 milljarða kr. gat í fjárlögum. Það var erfitt. Það var snúið. Það voru erfiðar ákvarðanir sem þurfti að taka. Við reyndum eftir fremsta megni að hlífa heilbrigðiskerfinu. Það var því miður ekki hægt að öllu leyti. Þegar kemur síðan að því að gatinu hefur verið lokað þá er algjört grundvallaratriði að byrja að setja fjármuni þangað og byggja upp, byrja á heilbrigðiskerfinu, byrja á almannatryggingakerfinu, byrja á þeim stöðum sem við teljum mikilvægast að setja fjármuni okkar í. En á hverju byrjaði þessi ríkisstjórn? Hún byrjaði á því að létta sköttum af þeim sem síst þurfa á því að halda. Hún byrjaði á því að lækka veiðigjöld. Hún byrjaði á því að tilkynna okkur að auðlegðarskatturinn yrði ekki framlengdur. Hún sagði okkur það 1. maí sl. að næsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar væri að afnema hér raforkuskatt.

Á sama degi og verið er að boða hér lögbann á verkföll heilbrigðisstétta og annarra hópa innan BHM er haldin sýning í Valhöll þar sem gamla tuggan um skattalækkanirnar, sem aldrei virðast snerta á neinu sem viðkemur íslensku efnahagslífi eða hafa nein neikvæð áhrif á það, er byrjuð aftur og sú sýning öll. Sú skrautsýning fer af stað alveg á fullu gasi. Á sama tíma er þeim sem eru í verkfalli sem verið er að setja lögbann á sagt að ef þeirra kjör verði bætt þá fari hér allt í bál og brand. Þetta stemmir engan veginn. Menn eiga að stíga hér fram, vera heiðarlegir og segja það hreint út að pólitísk lífsskoðun búi þarna að baki, ekkert annað, vegna þess að það er staðreyndin.

Virðulegi forseti. Það er líka rétt sem hér kom fram áðan, að það er ekkert jafnvægi í viðræðum milli aðila þegar annar hefur vald til þess að setja lög á verkfallsaðgerðir hins aðilans, viðsemjandans. Það á sérstaklega við þegar viðsemjandinn, í þessu tilfelli ríkið, hefur sýnt það að hann hikar ekki við að beita því lagasetningarvaldi á verkfall.

Ég hef áhyggjur a því að það sem á að vera neyðarhemill og er fátítt sé notað eins og á undanförnum árum, að menn skuli beita honum jafn grimmt og þessi ríkisstjórn gerir. Þetta er í fjórða skipti á tveimur árum sem hún kemur hingað inn með frumvarp um að setja lög á kjaradeilur. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að svona nota menn ekki neyðarhemil. Neyðarhemill er vegna aðstæðna sem ekki verður ráðið við, þá mega menn rífa í hann, en aðstæður sem ekki verður ráðið við eru ekki aðstæður þar sem menn ráða ekki við verkefnið. Ríkisstjórnin hefur sýnt það í kjaradeilum undanfarinna ára að hún ræður ekki við að semja, menn ráða ekki við að semja. Þá er ákveðið að rífa í neyðarhemilinn. Það er ekki þess vegna sem við eigum að nota hann. Mér þykir líka sérkennilegt, eins og komið hefur fram í umræðunni áður, að það sé verið að rífa í neyðarhemilinn gagnvart verkföllum og verkfallsaðgerðum sem hafa ekki enn farið af stað. Þetta er eins og að vera um borð í lest og rífa í neyðarhemilinn á brautarstöðinni áður en lagt er í hann. Ég skil þetta ekki. Þetta er vegna þess að menn sjá ekki fram á að geta samið. Menn hafa gefist upp gagnvart því að semja. Þetta er ekki samningafólk.

Virðulegi forseti. Við höfum kallað eftir því hér vikum og mánuðum saman að þessi umræða verði tekin í þingsal. Hvað hafa menn sagt við okkur? Þetta verður ekki leyst í sölum Alþingis. Gefið hefur verið í skyn að menn ráði aldeilis við verkefnið og við ættum ekkert að vera að kássast upp á ríkisstjórnina, sem er með allt þetta mál á sínu valdi og ræður vel við það, og við skyldum ekkert vera að skipta okkur af því hér í þingsölum, það verði ekkert leyst hér. Hvað erum við að gera hér? Svo koma menn hingað með lög á deiluna. Þá eru þeir menn til að ræða þetta. Þá eru þeir til í að tala um kjaradeilur sem hafa verið viðvarandi í á þriðja mánuð. Þegar á að setja lög þá eru þeir til í þetta, en að ræða lausnir, ræða leiðir, ræða hugsanleg samningsatriði — nei, það kemur ekki til greina.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, eins og aðrir sem hér hafa talað, að menn hafi aldrei farið í þessar samningaviðræður af neinni alvöru. Það eru svo margar vísbendingar sem benda til þess og staðfesta það. Í fyrsta lagi er sú staðreynd að allan tímann meðan á þessum deilum stóð og við vorum að ræða þetta í þingsal þá fengum við svörin: Við erum að bíða eftir almenna markaðnum. Forsætisráðherra sagði: Þetta verður ekki leyst hér, þetta verður leyst af aðilum annars staðar. Hann benti alltaf á almenna markaðinn. Fjármálaráðherra gerði það líka. Hvað gerist svo þegar almenni markaðurinn er búinn að ná niðurstöðu, sem er reyndar ekki búið að greiða atkvæði um þannig að niðurstaðan hefur ekki verið staðfest? Hvað gerist svo þegar þau hafa náð niðurstöðu í sínum málum? Þá líða nokkrir dagar og þá er komið lögbann á verkfallsaðgerðir BHM og hjúkrunarfræðinga. Nokkrir dagar, hvað segir það okkur? Menn þrautreyndu aldrei samningaleiðina. Menn þrautreyndu hana aldrei.

Virðulegi forseti. Ég er sorgmædd yfir því að við séum komin á þennan stað. Ég er afar leið yfir því að menn skuli hafa ákveðið að fara þessa leið í staðinn fyrir að reyna samningaleiðina til þrautar. Ég er sérstaklega leið yfir því að hér eiga í hlut hópar kvenna, ekki eingöngu en þó í meiri hluta, það eru stórar kvennastéttir hér undir, og að þetta skuli gert helgina áður en við höldum upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Svona heldur ríkisstjórnin upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna, með lögum á verkfallsaðgerðir kvennastétta sem menn reyndu ekki einu sinni að semja við af fullri alvöru.

Ég held því líka fram að þetta sé ekki neyðarhemill í tilviki þessarar ríkisstjórnar, heldur sé það orðið mynstur þegar menn koma hingað inn í fjórða skipti á tveimur árum með svona löggjöf. Ég man ekki eftir slíku. Það þarf að fara langt aftur til að finna dæmi um að menn hafi komið jafn oft inn með slíka lagasetningu. Þá er þetta orðið mynstur, þetta er orðin aðferð í samningum, ekki neyðarhemill.

Varðandi frumvarpið sjálft þá fór hv. þm. Guðbjartur Hannesson ágætlega farið yfir það hér. Ég ætla að leyfa mér að fagna orðum hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur þegar hún túlkaði 3. gr. með þeim hætti að hún gæti tekið til kjaraþróunar þeirra stétta, t.d. lækna og framhaldsskólakennara, ef menn læsu fyrstu málsgreinina í þeirri grein.

Ég er samt undrandi á því að menn hafi viljað vera svona stífir á því að halda inni tímasetningunni um 1. maí. Ég skil það ekki alveg. Þetta fer ekki alveg saman, en engu að síður vega orð þingmanna og sérstaklega stjórnarþingmanna hér í salnum þungt þegar kemur að lögskýringum. Ég ætla þeim því það að þetta standi og eftir því verði farið, þ.e. að þetta eigi við um þessa samninga líka. Það vegur þungt þegar slíkt er sagt hér og ég ætla að vona og trúi því þá að gerðardómur muni taka tillit til þess.

Ég ætla ekki að fara í aðra þætti hér í smáatriðum. Við gerum þó nokkrar athugasemdir við þetta frumvarp. Við erum á móti því í grunninn. Við erum á móti því að lagasetningin yfir höfuð fari hér fram. Síðan erum við á móti því með hvaða hætti menn nálgast þetta efnislega. Við leggjum því til að þessu verði vísað frá.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég líka segja það hér að þó svo að menn setji lög á þessar deilur þá er það engin lausn á deilunum sjálfum. Menn eru eingöngu að setja plástur sem heldur ekki einu sinni vel, vondan plástur á sár sem mun opnast aftur og aftur ef menn ráðast ekki að rót vandans sem er sú að það þarf að setja töluvert meiri fjármuni inn í heilbrigðiskerfið og tryggja að aðbúnaður okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólks sé betri en hann er. Það þarf að hlusta á heilbrigðisstarfsfólk þegar það kallar eftir betri tækjum, það þarf að hlusta á það þegar það kallar eftir betra húsnæði og það þarf að hlusta á það þegar það biður um betri kjör vegna þess að þetta er starfsfólk á heimsmælikvarða, sem getur unnið hvar sem er í heiminum og er eftirsótt fyrir þekkingu sína. Það skiptir máli að við hlustum á það.

Hæstv. fjármálaráðherra kallaði hér fram í í gær: Hvað með sjúklingana? Ég veit ekki betur en að þeir hafi fengið góða þjónustu þrátt fyrir verkfallsaðgerðir vegna þess að þessu fólki er ekkert sama um þá. Og að halda öðru fram er að mínu mati afar ósanngjarnt. Þá vil ég líka spyrja þá sem ætla að samþykkja þessa lagasetningu hér: Hvað með sjúklingana í haust? Hvað með sjúklingana á næsta ári? Hvað með sjúklingana á þarnæsta ári? Hvað með sjúklingana eftir fimm ár ef þessi aðgerð verður til þess að mola undan kerfinu vegna þess að fólk segi upp og ákveði að leita annað því að á það hafi ekki verið hlustað? Það verður að horfa til lengri tíma en verið er að gera. Þessi lagasetning, virðulegi forseti, er að mínu mati ekki rétta leiðin til þess.

Ég skora á þingmenn í stjórnarflokkunum, sem hér eru, að hugsa sig aðeins um og velta fyrir sér hvaða afleiðingar þetta getur haft, hlusta á þá sem verið er að setja lögin á og velta fyrir sér hvort þau séu ekki til í að vera samferða okkur í minni hlutanum að hafna þessari löggjöf og hefja alvöruviðræður um kjör þessara hópa.