144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá skil ég hv. þingmann og meiri hlutann þannig að þetta taki líka til samninga lækna og annarra opinberra starfsmanna sem hafa verið að semja á undanförnum missirum. Það hlýtur að vera fagnaðarefni að meiri hluti nefndarinnar skuli túlka það svo. Það skiptir máli að það komi mjög skýrt fram hér þegar við erum að ganga frá þessu máli.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann á móti: Ef fyrsta skilyrði gerir ráð fyrir því að allir samningar annarra opinberra starfsmanna og sambærilegra aðila séu undir í þessu, hvers vegna var þá lögð slík ofuráhersla á að halda inni dagsetningunni 1. maí í undirskilyrðinu? Ef ég skil þingmanninn rétt þá er 1. maí undirviðmið við hina og þá legg ég áherslu á að fá svar við því hvers vegna menn leggja svona mikla áherslu á 1. maí áfram.