144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt eitt meginefni frumvarpsins að enn er hægt að semja. Það kom mjög skýrt fram á fundi nefndarinnar í morgun að til stendur að halda áfram að reyna, þannig að það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Hv. þingmaður kom inn á skipan gerðardómsins og að það væri einsdæmi að hann væri skipaður þremur mönnum, að Hæstiréttur skipaði alla þrjá aðilana. Það er ekki einsdæmi. Það var þannig í lögum nr. 34/2001, sem sett voru á kjaradeilur fiskimanna og fleiri, og eins í lögum nr. 117/2004, á grunnskólakennara. Það kom jafnframt fram á fundinum í morgun að ekki var óskað eftir breytingu á því ákvæði af hálfu BHM, að þeir kærðu sig ekki um slíkan gerðardóm, svo að það komi fram.

Hv. þingmaður talar um að sérkennilegt sé að setja lög á stéttir sem ekki eru í verkfalli. Þær stéttir sem eru tilgreindar þarna eru í samfloti, hafa valið að vera með sameiginlega kröfugerð, sameiginlega samninganefnd og hafa allar annaðhvort boðað verkfall eða staðið í einhvers konar verkfallsaðgerðum. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að árið 2010, þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn, voru samþykkt á Alþingi lög á boðað verkfall flugvirkja, flugvirkjar voru ekki í verkfalli. Hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson, sem þá var hæstv. ráðherra ef ég fer rétt með, greiddi atkvæði með því.