144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað sláandi þegar maður les frumvarpið sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur, af því að aðrir ráðherrar, þar með talinn hæstv. forsætisráðherra, lögðu ekki í að flytja það, að þar er ekki að öllu leyti greint rétt frá því sem segir í minnisblaði landlæknis. Það segir „að í lok þess komi fram“ og síðan er dregin upp mjög grafísk mynd af stöðunni eins og landlæknir sér hana innan heilbrigðiskerfisins. En menn fara ekki lengra. Þeir segja ekki frá því í greinargerðinni að lokahnykkurinn á lýsingu landlæknis var einmitt sá að þótt lagasetning kunni að leysa vandann til skamms tíma gerir hún það ekki til langs tíma. Því miður liggur fyrir hér í blálok umræðunnar að ekki er búið að uppfylla það sem landlæknir segir að nauðsynlegt sé að gera, þ.e. að það komi fram afdráttarlausar yfirlýsingar um að menn fari samt bak þessum gerningi í viðræður til að tryggja frið innan kerfisins. Það skiptir meginmáli. Ríkisstjórnin hirðir ekki hætishót um það. Og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, var ekkert að reyna að tala sig frá því. Hún sagði þegar ég spurði hana að því: „Nei.“ Á meðan stóð hæstv. heilbrigðisráðherra og stakk nefinu inn um gættina hér í salnum. Afdráttarlausar yfirlýsingar vantar frá honum. Hann er fagráðherra.

Ég hef sagt það áður að hæstv. ráðherra hefur býsna mikinn kraft. Mikið óskaplega hefði verið notalegra og meira gaman að sjá þann kraft geysast fram í þessu máli, hann var maðurinn sem gat gefið þessar afdráttarlausu yfirlýsingar. (Forseti hringir.) Þá værum við hugsanlega öll með minni sviða í túlanum eftir þennan gerning (Forseti hringir.) en við verðum með þegar við göngum heim í kvöld.