144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Landlæknir er búinn að vera að senda bréf á þessa ríkisstjórn núna í mánuð og segja að það sé hættuástand í heilbrigðiskerfinu og að það sé á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að leysa þetta vandamál með einum eða öðrum hætti. Þessi annar háttur er náttúrlega að það er hægt að ganga til samninga til að halda í heilbrigðisstarfsfólk og fyrsta flokks heilbrigðiskerfi á landinu. Það er forgangsröðun sem landsmenn vilja óháð flokkum, kyni, aldri og búsetu, það er það sem landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins segja til um. Það er það sem Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir kosningar, en það er ekki það sem þessi ríkisstjórn ætlar gera. Og hún ræður.

Heilbrigðiskerfi okkar er enn þá eða var á síðasta ári fyrsta flokks. Árið þar á undan, það kemur sérstaklega fram í skýrslu sem landlæknir benti mér á, var Ísland með sérstöðu hvað það varðar að vera með alla þætti græna í sinni þjónustu. Þar segir að Svíþjóð og Noregur hafi fallið út af þessum lista. Sjáið, þetta er fyrsta flokks heilbrigðiskerfi sem varði í gegnum kreppuna. (Forseti hringir.) Það eru tvö ár í kosningar. Við skulum sjá hvernig þetta lítur út í aðdraganda þeirra.