144. löggjafarþing — 130. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:58]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð harmar þessar málalyktir. Við teljum þetta frumvarp vera ranglátt og við teljum það vera óskynsamlegt. Ég er hins vegar sannfærður um að þessi langa barátta og þessar miklu fórnir sem okkar ágæta heilbrigðisstarfsfólk hefur fært muni skila árangri þegar upp er staðið. Ég heiti á öll þau sem eiga eftir að koma að lausn þessarar deilu, vegna þess að henni er ekki lokið, að þau leggi sitt af mörkum. Þrátt fyrir allt þá fagna ég yfirlýsingum formanns allsherjarnefndar Alþingis sem voru mjög mikilvægar hér undir lok umræðunnar um túlkun á því hvernig eigi að taka á lausn deilunnar. Við hefðum viljað fá skýrari línur inn í sjálfan lagatextann og erum með tillögur þar að lútandi. En þær yfirlýsingar sem gefnar (Forseti hringir.) voru voru rýmri en lagatextinn, (Forseti hringir.) opna ýmsar dyr og ég fagna því. Þetta hlýtur að verða að skoðað sem mikilvægt (Forseti hringir.) lögskýringargagn þegar kemur að frekari (Forseti hringir.) úrvinnslu málsins.