144. löggjafarþing — 130. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Því miður eru kjaradeilurnar sem hér um ræðir og við höfum rætt um í dag komnar í þann hnút að það er ljóst að grípa þarf inn í. Því styð ég að það verði gert með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Á fundi nefndarinnar í morgun kom fram að deilurnar eru í hnút og samningar eru ekki líklegir í fyrirsjáanlegri framtíð. Hins vegar skora ég á aðila að nýta tímann sem gefinn er samkvæmt þessu frumvarpi sem nú verður lögfest í dag til þess að ræða saman og reyna að ná saman, okkur öllum til heilla. Nú ríður á að menn noti næstu daga og vikur vel og ég vonast svo sannarlega til þess að allir sem hér eru staddir leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða.