144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

lög á kjaradeilur.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nú er auðvitað spurning á hvaða plani menn vilja taka þessa umræðu. Ef menn vilja fara niður á þetta plan og segja að ríkisstjórnin hafi bara ekkert fram að færa er svo sem hægt að reyna að slást um þessi mál þar og þá væri kannski ágætt að rifja það upp að hjúkrunarfræðingar sögðu upp með gildan kjarasamning á síðasta kjörtímabili, ef ég man rétt sögðu á annað hundrað hjúkrunarfræðingar upp á síðasta kjörtímabili og hótuðu því þá að sækja störf frekar í Noregi. Það var í framhaldi af því að ríkisstjórnin hafði samið sérstaklega við forstjórann og gert vel við hann á spítalanum. Þá varð allt brjálað.

Ríkisstjórnin hefur falið samninganefnd sinni í þessari deilu nokkuð víðtækt umboð. Það sem hefur staðið til boða í þessari samningalotu eru launahækkanir upp á rétt um 20% og styrking á stofnunum. Ég veit ekki hvert innlegg Samfylkingarinnar er í þessu máli. Það virðist vera bara það að ganga að öllum kröfum eins og þeim er lýst. En það er ekki hægt að gera, því miður. Bara sú staðreynd að menn skuli vera að semja hér til næstu þriggja ára almennt á almenna markaðnum og hinar ýmsu stéttir um launahækkanir sem eru í kringum 20% er auðvitað úr takti við allt það sem er að gerast alls staðar annars staðar. Við höfum tekið út meiri kaupmáttaraukningu á síðasta ári en þekkist annars staðar í Evrópu.

Það þarf að koma einhver skynsemistónn héðan frá þinginu. Má ég biðja um að menn viðurkenni að minnsta kosti að það gildi einhver lögmál í þessum málum? Má ég biðja um að menn komi ekki hingað og segi: Hækkum launin um 30% eða 40% af því að menn halda (Gripið fram í.)að það sé til vinsælda fallið þann daginn. (Gripið fram í.) Það eru kröfurnar, hv. þingmaður sem kallar hér fram í, sem menn standa frammi fyrir, að ofan á þær almennu launahækkanir sem hlaupa á þeim tölum sem ég nefndi verði (Forseti hringir.) bætt fyrir gliðnun upp á 14–25% á næstu þremur árum. Ég er í raun og veru ekki að tala um að krafan standi upp á 30% heldur kannski nær 40–50% þegar þetta er tekið með í reikninginn. (Forseti hringir.) Við getum rætt þetta hér, en samningarnir verða á endanum gerðir við samningaborðið.