144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um mat hans á stöðu mála í heilbrigðisþjónustunni eftir síðustu aðgerðir stjórnarmeirihlutans. Þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt áðan orðrétt að kjörin yrðu ákveðin við samningaborðið ákvað ríkisstjórnin að fara aðra leið um helgina þegar lög voru sett á verkföll hjá BHM og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það sló mig sem ég sá haft eftir hæstv. heilbrigðisráðherra framan á Fréttablaðinu í dag í kjölfar fregna af gríðarlegum uppsögnum hjúkrunarfræðinga. Heil vakt hjúkrunarfræðinga segir upp á gjörgæsludeild Landspítala. Á vaktinni eru sex hjúkrunarfræðingar og þar af einn með 30 ára reynslu í þremur löndum. Í það minnsta 11 af um það bil 20 hjúkrunarfræðingum á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans ætla að segja upp störfum í dag, segir í sömu frétt.

Hér kemur líka fram hjá framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala að mikil reiði og vonbrigði séu meðal hjúkrunarfræðinga vegna lagasetningar á verkfallið og að heilbrigðiskerfið þoli ekki uppsagnir, en haft er eftir hæstv. ráðherra framan á Fréttablaðinu í dag að uppsagnirnar séu veruleiki sem stofnanirnar þurfi að takast á við.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert verður útspil stjórnvalda til að styðja við þessar stofnanir í ljósi þess að stjórnvöld hafa núna komið með mjög harkalegt inngrip inn í kjaradeiluna. Hér kom fram í umræðu um þá lagasetningu að til að mynda væri fyrirhuguð frekari uppbygging í heilsugæslunni, en hér erum við að horfa upp á mjög alvarlega stöðu á Landspítalanum sem og á öðrum heilbrigðisstofnunum og það er ekki hægt að vísa yfir á stofnanirnar allri ábyrgð á því að takast á við þann vanda sem núna blasir við. Ég er alveg viss um að hæstv. ráðherra er mér sammála um það. Enn er ekki búið að boða til samningafunda samkvæmt nýjustu fréttum sem ég hef séð. Stuttur tími er til stefnu, (Forseti hringir.) til 1. júlí þegar gerðardómur á að taka til starfa. Hvert verður framlag stjórnvalda til að leysa þennan brýna vanda heilbrigðisstofnananna ef uppsagnirnar standa?