144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi þá fyrirspurn sem hv. þingmaður kemur fram með og vitnar til þeirra orða í Fréttablaðinu sem höfð voru eftir þeim sem hér stendur er alveg rétt að þetta er sá veruleiki sem stofnanirnar okkar í kerfinu standa frammi fyrir. Með þeim orðum er ég á engan hátt að vísa allri ábyrgð á þessari stöðu yfir til stofnananna, hugsunin í þessu er ekki á þann veg. Ég hafði samband við forstöðumenn heilbrigðisstofnana um helgina og var í samráði við þá. Síðustu orðaskipti mín við til dæmis forstjóra Landspítalans, sem er þyngsti staðurinn í þessu öllu saman, voru rétt fyrir hádegið og þá hafði hann ekki enn upplýsingar um umfang þeirra uppsagna sem hér eru ræddar. Hann bendir á, ef ég man það rétt, að um 100 deildarstjórar taka á móti slíku frá starfsmönnum Landspítalans þannig að heildaryfirsýnin yfir vandann í uppsiglingu er engin í stöðunni í dag önnur en sú að þarna er klárlega vaxandi vandamál, því miður, og á margan hátt er reiði og sárindi hjá hjúkrunarfræðingum mjög skiljanleg í ljósi þeirra aðgerða sem gripið var til. Klárlega hef ég fullan skilning á því.

Meginverkefnið hjá okkur núna er að endurforgangsraða þeim verkum sem þarf að vinna á spítölunum, skipuleggja starf þeirra og ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp, m.a. í umræðum um lagafrumvarpið um helgina, í tengslum við sumarleyfi starfsfólks. Það er alveg augljóst að við sjáum ekki fram á lausn á þeim vanda sem við er að glíma í kerfinu á næstu vikum eða mánuðum. Þetta er miklu stærra og umfangsmeira mál en svo að við vinnum okkur út úr þessu í einni sviphendingu.