144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar vitnað er til orða landlæknis um að lög á verkfall muni ekki skapa varanlegan vinnufrið þekkja held ég flestir þingmenn hér í þessum sal afstöðu landlæknis til þessarar deilu. Hann talaði mjög stíft fyrir því að stjórnvöld gripu til þess úrræðis sem að lokum var því miður beitt. Þegar rætt er um það með hvernig hægt er að koma til móts við þá stöðu sem þarna er að byggjast upp er það í mínum huga með tvennum hætti, annars vegar með samningum við starfsfólk sem ég bíð eftir að hefjist að forgöngu sáttasemjara sem lýsti því yfir við meðferð málsins fyrir allsherjarnefnd að hún hygðist boða til fundar eftir helgi.

Þetta er annað atriðið. Hitt atriðið er það að við erum núna að vinna að því að greina biðlista í kerfinu og ég bíð eftir vinnu landlæknis við það hvernig við getum forgangsraðað því verki sem þar hefur safnast upp á umliðnum mánuðum. (Forseti hringir.) Það er stóra málið í mínum huga, með hvaða hætti við getum þjónustað það fólk sem sætt hefur því undanfarna tvo mánuði sérstaklega að fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem því ber.