144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

samkeppni um menntað vinnuafl.

[15:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki rólegri eftir þetta svar. Ég auglýsi eftir hreinskiptinni og raunsærri umræðu um það að á tilteknum deildum á Landspítalanum séu til dæmis allir hjúkrunarfræðingar að segja upp störfum, jafnvel í þessum töluðu orðum ef marka má nýleg tíðindi. Það er ekki bjart fram undan á þeim deildum á næstu missirum. Þar blasir við mjög erfiður vandi.

Getur verið að fólk sé mögulega óánægt með endurgreiðslubyrði námslána, að fólk sé mögulega óánægt með að Fæðingarorlofssjóður er í mýflugumynd? Að húsnæðiskerfið hjálpar ekki fólki til að koma þaki yfir höfuðið? Matarverð er hátt. Samráð er lítið í samfélaginu. Fólki finnst misskipt þeim verðmætum sem hér eru sköpuð. Getur verið (Forseti hringir.) að ef hæstv. ráðherra hugsar aðeins út fyrir boxið sjái hann kannski úrlausnarefni sem blasa við í samfélaginu og rætt hefur verið um og væru til þess fallin, ef við leystum þau, að halda menntuðu vinnuafli, menntuðu fólki, hæfileikaríku fólki, á Íslandi?