144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[15:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því sömuleiðis að hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur dregið breytingartillögu sína til baka og ég vona að naflaskoðun Pírata leiði þá að þeirri niðurstöðu á endanum að upplýsinga- og aðhaldsgildi þess að birta skattskrá, að birta álagningu, hafi meira vægi en önnur sjónarmið.

Varðandi skjölunarskylduna erum við hv. þm. Árni Páll Árnason ekki sáttir við niðurstöður þess máls og skilum sérnefndaráliti um það. Við vorum tilbúnir til samkomulags um að rýmka fjárhæðarmörkin en höfum ekki fengið sannfærandi rök fyrir því að ganga svo langt að fella hana með öllu niður gagnvart þótt ekki væri nema nokkrum stærstu fyrirtækjasamstæðum og samsteypum í landinu sem ekki fyndu tilfinnanlega fyrir því að leggja í nokkurra milljóna kostnað á ári til að skjala sín innbyrðis viðskipti. Við munum greiða atkvæði gegn fyrri tölulið breytingartillögunnar á þskj. 1040.

Að lokum fagna ég svo að sjálfsögðu eins og aðrir hér að ríkisstjórnin er endanlega rekin á flótta með áform sín um að skerða framlög til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og fór það nákvæmlega eins og ég spáði fyrir um í haust.