144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

úrvinnslugjald.

650. mál
[18:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að geta veitt mér tiltölulega skýr svör við spurningu sem kannski kom óvænt til hans. Ég get vel skilið að hv. þingmaður hafi ekki búið sig undir að þurfa að lenda í svörum og umræðum um þetta ágæta frumvarp þegar svo háttar til að allir þeir sem að frumvarpinu standa eru sammála. En það er nú svo að sá sem hér stendur kom að Úrvinnslusjóði á sínum tíma, á fyrstu stigum hans, og gamall umhverfisráðherra getur leyft sér að hafa skoðanir á þessu. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að Úrvinnslusjóður sé þess konar mikilvægt apparat í okkar kerfi að menn eigi ekkert að komast upp með að ákveða að þeirra hlutur sé ekki nægilega ríkur í stjórn Úrvinnslusjóðs og sendi um það sérstaka beiðni og þá sé rokið til og Alþingi Íslendinga breytir lögum til þess að fjölga og koma fyrir þeim sem eftir því óskar.

Út af fyrir sig tek ég alveg mark á skýringum hv. þingmanns um að það hafi komið í ljós að forverar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þ.e. LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva, að það hafi ekki verið rétt eftir haft og þau hafi samið sig frá framleiðendaábyrgðinni. En mér finnst þá að það þurfi að koma fram í nefndarálitinu. Ég sé það ekki og ég heyrði það ekki fyrr en ég þurfti að ganga eftir því hér hjá hv. þingmanni.

Ég spyr síðan líka hv. þingmann, ef hann getur svarað mér: Með hvaða hætti veikist sú túlkun að sjóðurinn uppfylli kröfur um framleiðendaábyrgð samkvæmt Evróputilskipun? Það er hvergi skýrt í þessari ágætu greinargerð. Ég hefði viljað fá að vita hvernig það er. Mér finnst satt að segja (Forseti hringir.) að hér sé hálfgert yfirvarp og hér sé bara verið að fara eftir einhverjum sérkennilegum óskum utan úr bæ.