144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er ekki um að ræða lausn á þessu vandamáli. Hér er eingöngu inngrip löggjafans í þessa alvarlegu stöðu til þess að reyna að leysa bráðasta vandann sem felst í því að sveitarfélögin eru ekki með lagaheimild til að fjármagna sinn hluta af samkomulaginu. Það kom fram í máli mínu og kemur fram í greinargerðinni að fjárupphæðin var 480 millj. kr. sem ríkið lagði til en er nú 520 millj. kr., en þetta snýst um lagaheimild til að draga hlutdeild sveitarfélaganna af framlögum þeirra úr jöfnunarsjóði. Auðvitað er það þannig að engum okkar í nefndinni finnst þetta vera sérlega skemmtilegt mál að flytja, en engu að síður er það bráðnauðsynlegt og okkar mat að það verði ekki umflúið.

Það má alveg halda því fram að nefndin eigi ekki að sætta sig við að leysa málin með þessum hætti og eigi bara sjálf að ákveða eitthvert samkomulag, en þannig virkar þetta einfaldlega ekki. Það kom fram í störfum nefndarinnar að litið hafa dagsins ljós drög að einhvers konar tillögum að samkomulagi. Það er hins vegar allt of snemmt að fara út í það með hvaða hætti það gæti verið. Við vonum að það náist samkomulag og lýsum yfir þungum áhyggjum af því að enn sé ekki búið að ná saman og hvetjum aðila enn og aftur til þess að leysa þetta mál nú og reyna þá að búa svo um hnútana að öll sveitarfélögin skilji það samkomulag sem mun þá liggja eftir á sama hátt. Í því felst nú vandinn að það samkomulag sem náðist fram á sínum tíma er ekki túlkað á sama hátt hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum.