144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á því að lýsa skilningi á aðstöðu hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem flytur mál sem er auðvitað bráðabirgðamál, eins og kom fram í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, þ.e. það er verið að bjarga málum fyrir horn sem á að sjálfsögðu ekki að vera staðan í þessum málaflokki. Ég tek hér til máls því að ég tel mér málið skylt, allt frá því að ég kom að þessum málum fyrst fyrir hönd Reykjavíkurborgar sem fulltrúi í fræðsluráði Reykjavíkurborgar þegar upphaflega voru sett á svokölluð vistarbönd, þ.e. Reykjavíkurborg hætti að taka við nemendum utan af landi inn í tónlistarskóla sína án þess að greitt væri sérstaklega fyrir. Það stafar af því að það kerfi sem hefur verið hjá Reykjavíkurborg er annað en tíðkast víða annars staðar í sveitarfélögum þar sem skólarnir eru einfaldlega reknir af sveitarfélögum. Hér í höfuðborginni eru margir skólar sjálfstætt starfandi og þeir berjast um fjármuni, þannig að það hefur ekki verið auðveld staða hjá Reykjavíkurborg að halda utan um skipulag tónlistarnáms. En á sama tíma hefur mér þótt mikilvægt að halda því til haga að hér, eins og auðvitað víða um land, eru tónlistarskólar landsins að skila alveg gríðarlega góðu starfi. Það skilar sér í því einstæða tónlistarlífi sem við eigum, 300 þúsund manna þjóð með tónlistarlíf á heimsmælikvarða vil ég segja, hvort sem litið er til sígildrar tónlistar, djasstónlistar eða popptónlistar. Þetta kemur ekki út af engu. Þetta sprettur ekki úr engu. Þetta sprettur úr skólunum þar sem er rekið alveg feykilega gott starf. En staðan hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma, snemma á þessari öld, var í raun og veru sú að það var vilji til þess að reyna að koma auknu skipulagi á rekstur þessara skóla.

Vistarböndin eftir á að hyggja, og ég sagði það nú á sínum tíma af því að svo kom ég að þessu máli aftur sem ráðherra mennta- og menningarmála og stóð fyrir því að vistarböndin voru aflögð samhliða því að ríkið lagði til aukið fé, nýtt fé inn í tónlistarnám, því að eins og öllum hér er kunnugt eru tónlistarskólarnir verkefni sveitarfélaganna, tónlistarnámið fer fram á vegum sveitarfélaganna samkvæmt fyrri verkaskiptingu, en það var mín skoðun sem ráðherra, og ég veit að ég á mér marga bandamenn um þá skoðun, að það væri í raun og veru óviðunandi að ríkið kæmi ekki að námi á framhaldsstigi í þessari grein, ólíkt því sem gerist til að mynda í hinu almenna skólakerfi þar sem ríkið rekur framhaldsskóla en sveitarfélag annast rekstur leik- og grunnskóla.

Það var því til endurspegla þann vilja að ákveðið var að setja þessa fjármuni í tónlistarnám og það var gert í og með líka vegna þess að tónlistarskólar fóru ekki varhluta af kreppunni hjá ýmsum sveitarfélögum í kringum landið og ríkið vildi því koma með fjármunina inn í skólana til þess að efla tónlistarnám. Það kom hins vegar á daginn tvennt sem hefur orðið til þess að þetta mál þarfnast endurskoðunar, þ.e. samkomulagið sjálft, og það er að nemendaupplýsingar sveitarfélaganna og tónlistarskólanna voru ekki fullnægjandi grunnur fyrir það samkomulag sem var gert á sínum tíma, það miðaðist við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Nemendur reyndust fleiri en þá var talið og því var alveg á hreinu líka að endurskoða þyrfti þann grunn. Það hefur verið gert því að ríkið hefur auðvitað sett viðbótarfjármagn í þetta en upphaflega framlagið var, eins og kom fram í máli hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar, 480 milljónir en er nú 520 milljónir.

Hins vegar kom það líka fram að sveitarfélögin túlkuðu ekki þetta samkomulag með sama hætti. Þar er þá helst að nefna Reykjavíkurborg sem taldi að með þessu hefði ríkið tekið ábyrgð á framhaldsstiginu í tónlist, sem var alls ekki ætlunin á bak við samkomulagið heldur var tónlistarnám áfram lögbundið verkefni sveitarfélaga. Sá núningur hefur orðið til þess að staða tónlistarskólanna, sérstaklega í Reykjavík, hefur verið mjög þung. Hún hefur verið mjög þung. Ég vil að sjálfsögðu bera þá ábyrgð sem kann að vera á mínum herðum í því máli en í því samkomulagi sem upphaflega var gert var vitnað til þess að frumvarp til laga yrði lagt fram um endurskoðað fyrirkomulag tónlistarnáms þar sem festa átti þetta samkomulag í sessi. Það var þó ekki gengið svo langt að segja að ríkið ætti að taka yfir ábyrgðina á framhaldsstiginu, enda væri það mjög flókin framkvæmd, heldur að við mundum festa þetta samkomulag á einhvern hátt í sessi í lögum.

Það frumvarp lá fyrir vorið 2013 og var þá kynnt opinberlega. Að því komu allir hagsmunaaðilar; sveitarfélögin, skólarnir, og ríkið líka og þá bæði menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Menn voru þó ekki á eitt sáttir þá um hvernig frumvarpið ætti nákvæmlega að líta út þó að ég hafi ákveðið að kynna frumvarpsdrögin á þeim tíma, en mér fannst mjög mikilvægt að þetta mál næði fram að ganga og nefndi sem rökstuðning fyrir því að þetta frumvarp var í smíðum talsvert lengur en ég var ráðherra, það var komið á þingmálaskrá ráðherrans sem gegndi því embætti á undan mér, þ.e. þessi mál hafa lengi verið í skoðun, í raun og veru allt of lengi. Þetta mál hefur líka verið á frumvarpaskrá núverandi hæstv. ráðherra, en það sem ég held um það er að nú virðast vera einhverjar blikur á lofti um hvert eigi að stefna. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra og bíð enn möguleikans á því að fá svör við þeirri fyrirspurn, því að hér hefur auðvitað ekki verið fyrirspurnatími um alllangt skeið eins og hæstv. forseta er kunnugt. En það virðist vera ætlunin — nú segi ég „virðist“ því að ég hef ekki fengið svör frá ráðherranum um það — að hverfa frá þeim hugmyndum sem aðilar höfðu mestmegnis náð samkomulagi um í frumvarpinu sem var kynnt vorið 2013, en þó skorti herslumuninn á að hægt væri að lenda, og fara aðrar leiðir. Þá vitna ég til þeirra frétta sem við þingmenn höfum haft um að ætlunin sé að hverfa frá því samkomulagi sem er núna í raun verið að framlengja um eitt ár og veita þá fjármuni í sameinaðan einn tónlistarskóla í Reykjavík.

Ég mun styðja þetta frumvarp, ég tek það fram, en mér finnst mjög mikilvægt að við hv. þingmenn fáum sem fyrst einhverjar upplýsingar um framtíðarsýn hæstv. ráðherra í málinu, því að það er þá talsverð breyting á því sem hefur verið til umræðu árum saman um fyrirkomulag tónlistarnáms ef ætlunin er að ríkið styðji við einn tónlistarskóla á framhaldsstigi í tónlist. Ég spyr: Hvað verður þá um framhaldsstig í tónlist víða um land? Við vitum að framhaldsstig er í tónlistarskólum víða um land og við lásum fregnir síðast í dag frá Ísafirði þar sem menn hafa áhyggjur af þessu, það er mjög þekktur tónlistarbær með tónlistarhátíðir og öflugan tónlistarskóla þar sem er framhaldsstig. Það á auðvitað við um fjöldamörg sveitarfélög í kringum landið. Er ætlun stjórnvalda eða hæstv. ráðherra að beina þessum fjármunum öllum í einn sameinaðan tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólans í Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu og styðja ekki við framhaldsstig úti um land? Þá erum við komin talsvert langt frá því sjónarmiði sem réð dálítið för í upphafi, sem var að efla framhaldsstigið um land allt og aflétta vistarböndunum sem voru búin að hamla námi tónlistarskólanemenda allt of lengi, því miður, þannig að það var eitt af meginmarkmiðum samkomulagsins á sínum tíma.

Þetta held ég að við þurfum að fá yfirvegaða umræðu um. Ég ætla ekki að lýsa neinni skoðun núna strax, ekki fyrr en ég fæ á hreint hverjar fyrirætlanirnar eru. Hins vegar lýsi ég áhyggjum af því ef ætlunin er að beina öllu framlagi ríkisins til tónlistarnáms hingað á höfuðborgarsvæðið. Ég lýsi áhyggjum af því hvaða áhrif það hefur á tónlistarkennslu úti um land, því að sveitarfélögin hafa staðið af miklum myndarskap við bakið á náminu og það þarf ekki nema lágmarksþekkingu og kunnáttu um íslenskt tónlistarlíf til að vita að það er ekkert síður byggt upp af tónlistarfólki utan af landi en frá höfuðborgarsvæðinu. Eða öllu heldur: Það góða fólk sem heldur uppi heiðri íslensks tónlistarlífs kemur hvaðanæva af landinu. Við þurfum að hafa það í huga.

Það kann að vera að hæstv. ráðherra geti veitt einhver góð svör við þessu öllu saman. Eins og ég segi vonast ég til þess að fyrirspurnatími geti orðið sem fyrst með undirbúnum fyrirspurnum, þannig að væntanlega fást þá svör við þessu.

Ástæða þess að ég vek máls á því hér er að þrátt fyrir að ég styðji þetta mál vil ég helst ekki þurfa að sjá það mál aftur. Ég vil helst að framtíðarsýn liggi fyrir, eigi síðar en í haust. Við getum svo haft ólíkar skoðanir á þeirri framtíðarsýn. Mín persónulega skoðun er sú, svo ég segi það í lok ræðu minnar, að ríkið beri ákveðna ábyrgð á framhaldsnámi í listgreinum rétt eins og öðrum greinum. Alveg eins og ríkið hefur axlað ábyrgð á framhaldsstiginu í hinum bóklegu greinum með rekstri framhaldsskóla um land allt þá ber ríkið ákveðna ábyrgð. Það hefur lengi verið stefna minnar hreyfingar, Vinstri grænna, að eðlilegt sé að þessi verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði líka endurskoðuð hvað varðar listnám. Þetta samkomulag var ákveðin viðurkenning á þeirri stefnu, þ.e. ríkið lýsti sig ábyrgt að einhverju leyti fyrir framtíð tónlistarmenntunar í landinu, en það var hins vegar ekki gengið svo langt í frumvarpi og það var málamiðlun milli sjónarmiða að ríkið tæki við ábyrgðinni. Það voru fyrst og fremst hin hagnýtu rök sem þar komu inn í. Í ljósi þess að framhaldsnám væri svo dreift um landið en þetta væri allt innan sömu stofnana sáu menn að það væru ákveðin hagkvæmnisrök sem mæltu gegn því að ríkið axlaði beinlínis ábyrgðina á framhaldsstiginu. Því var tillaga frumvarpsins á sínum tíma sú að eitthvert fyrirkomulag þar sem stuðningur ríkisins yrði með þessum hætti lögbundinn yrði skrifað inn í lög um tónlistarnám þó að ábyrgðin væri þannig séð enn þá á hendi sveitarfélaga. Ég tek það fram að þau hafa auðvitað axlað þá ábyrgð mjög vel í gegnum tíðina. Það sjáum við á tónlistarlífi okkar.

Ég hef áhyggjur af þessu. Nú man ég vel þegar þetta samkomulag var á sínum tíma undirritað, ég man ekki nákvæmlega hvenær en það var á svipuðum tíma og tónlistarhúsið okkar Harpa var opnað. Af því að ég hef í sjálfu sér aldrei verið sérstök áhugamanneskja um húsbyggingar á sviði menningar, þótt það hafi komið í minn hlut að ljúka við það hús, mitt hlutskipti varð skemmtilega ólíkt því sem ég hafði ætlað mér í þeim efnum, þá fannst mér mikilvægt að við sýndum það líka í verki, stjórnvöld, að inntakið væri það sem skipti máli en ekki einungis steypan, það skipti máli að þar væri blómleg starfsemi og það yrði gert til að mynda með því að efla tónlistarnám á þennan hátt.

Herra forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að lengja umræðuna heldur fara yfir þessa forsögu, því að það er mikilvægt að við höfum hana í huga þegar við ræðum þetta mál. Ég styð þetta frumvarp en ég vona um leið að þau verði ekki fleiri þessarar gerðar, að við náum saman um framtíðarsýn í tónlistarnámi af því að það er undirstaðan fyrir allt hitt, það er undirstaðan fyrir tónlistarlífið sem við getum öll verið mjög stolt af, hvort sem er í hversdagslífinu eða á hátíðarstundum, tónlistarnámið er undirstaðan. Þess vegna held ég að það sé mjög mikið til þess vinnandi að við náum einhverri góðri sátt um það hvernig við ætlum að hafa það framtíðarfyrirkomulag og það þarf auðvitað að liggja fyrir fyrr en síðar svo að við séum ekki með svona bráðabirgðamál á dagskrá of oft.