144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varla get ég komið hingað í ræðustól öðruvísi en að hrósa hv. þingmanni fyrir það kristilega umburðarlyndi sem hún sýnir hæstv. ráðherra með því að kalla þetta reddingu, eins og þeir hv. þingmenn hafa reyndar líka gert sem hafa tekið til máls hér á undan. Er ekki réttara að kalla þetta skítareddingu? Ég held það. Það er mjög langt síðan ég hef séð þingmál með þessum umbúnaði, sérstaklega þegar forsagan er höfð í huga, en þó skal ég ekki skjóta loku fyrir að einhvern tímann hafi það gerst. En umburðarlyndið birtist líka í því hjá hv. þingmanni að nú þegar við erum að fara að samþykkja þessa reddingu liggur það alveg skýrt fyrir að hæstv. ráðherra er kominn á einhverja allt aðra vegferð með framtíðarskipulag og verkaskiptingu tónlistarnámsins og skiptinguna á milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins.

Við höfum svo sem ekki séð mikið til þessa hæstv. ráðherra upp á síðkastið en þó eru sennilega þrjár til fjórar vikur síðan af þessu máli fóru að berast fregnir. Af því að hv. þingmaður rakti svo nákvæmlega forsögu málsins þá ætla ég bara að bera niður í þann stað þar sem hún sagði, eftir að hafa lýst því að málið hafði verið í vinnslu bæði hjá henni og áður, að hún hefði komist að niðurstöðu og kynnt ákveðið mál sem er á þingmálaskrá hæstv. ráðherra, en þá gerist það að við förum að heyra af því ávæning að það sé eitthvað allt annað sem hæstv. ráðherra hefur í huga til þess að finna peninga til þess að svara þörfinni núna. Nú ætla ég ekki að gefa mér neitt fyrir fram í þeim efnum frekar hv. þingmaður. Það kann vel að vera að sú leið sem hæstv. ráðherra er að velta fyrir sér sé bara ágæt, ég veit það ekki, en ég er svona hálfsmeykur við hana.

Spurning mín er þessi: Er það boðlegt þinginu að afgreiða þetta mál án þess að hæstv. ráðherra geri uppskátt um það og eftir atvikum leggi undir (Forseti hringir.) umræðu í þinginu hvaða leið hann hyggst fara?