144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Auðvitað skuldar hæstv. ráðherra okkur það að gera grein fyrir framtíðarsýn sinni, sérstaklega í ljósi þess að hún virðist alltaf vera önnur en við höfum miðað við út frá því samkomulagi sem hefur áður verið kynnt í frumvörpum og hefur áður verið kynnt hagsmunaaðilum. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn til munnlegs svars þann 21. maí til hæstv. ráðherra þar sem ég spyr hann um framtíðarsýn hvað varðar fyrirkomulag tónlistarnáms og hvenær hann hyggist leggja hér fram frumvarp til laga um tónlistarmenntun. Nú segi ég að umburðarlyndi mitt, sem hv. þingmanni þykir kannski í það mesta, stafar af því að við höfum ekki fengið að eiga þennan orðastað við hæstv. ráðherra, við höfum fregnir okkar fyrst og fremst úr fjölmiðlum þar sem tíðindi berast af því að þetta kunni að vera í smíðum. En það sem vekur athygli mína við þær fréttir er líka sú staðreynd sem þar hefur verið kynnt og ég mun spyrja hæstv. ráðherra um þegar ég fæ tækifæri til, að hagsmunaaðilar hafi í raun og veru ekki verið kallaðir með formlegum hætti að því nýja fyrirkomulagi sem hæstv. ráðherra er að skoða, þ.e. að félög tónlistarskólanna hafi ekki verið kölluð inn til formlegs samráðs heldur sé verið að vinna þetta í mjög þröngum hópi. Það vekur spurningar um það, af því að málið er flókið og þörf er á að við náum góðri sátt um fyrirkomulagið, hvernig hæstv. ráðherra hyggst nákvæmlega ná sátt um þetta fyrirkomulag. Við erum búin að sjá mótmæli frá formlegum aðilum, hagsmunasamtökum tónlistarskólanna, tónlistarskólastjórum, kennurum, við þessum fyrirætlunum sem þeir virðast líka bara haft spurnir af í fjölmiðlum.

Eins og ég segi stafar umburðarlyndi mitt kannski fyrst og fremst af því að ég vil fá tækifæri til að fá þetta á hreint hér í þinginu og að við fáum að vita nákvæmlega hvað stendur fyrir dyrum. En ég geri auðvitað alvarlegar athugasemdir við það að haldið sé áfram í þessu máli án þess að hafa alla þá aðila á bak við sig sem (Forseti hringir.) þar skipta máli og, eins og ég nefndi áðan, hugsanlega með mjög mikilvæga hagsmuni landsbyggðarinnar í hættu.