144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi í raun telja eðlilegt að hæstv. ráðherra kæmi og væri hér til að mynda við 2. umr. um frumvarpið til þess að geta svarað þessum fyrirspurnum. Ástæða þess að ég sagði áðan að ég mundi styðja þetta mál er að mér er kunnugt um stöðu tónlistarskólanna hér í Reykjavík. Ég tel að það stefni í slíkt óefni að okkur beri rík skylda til þess að bjarga því fyrir horn, svo ég noti það orðalag sem ég notaði áðan en hv. þingmaður kallaði skítareddingu í andsvari sínu, en auðvitað verðum við að fá þessa framtíðarsýn á hreint. Ég teldi ekki óeðlilegt að hæstv. ráðherra mundi ómaka sig við að koma hér og vera síðar við umræðu um þetta mál til þess að geta greint okkur frá þeirri framtíðarsýn ef ekki verður gert ráð fyrir því að hann svari hér munnlegum fyrirspurnum. Ég hef raunar áður átt orðastað við hæstv. ráðherra um hans framtíðarsýn í tónlistarnámi og kennslu á þessu þingi. Í þeim umræðum kom ekkert fram um þær fyrirætlanir sem við höfum nú heyrt af. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að það skýrist hér.

Ég held að best færi á því að hæstv. ráðherra gerði það bara í kringum umræðu um þetta mál að hann kæmi hér fram með hvað væri í gangi þannig að við gætum fengið það staðfest hér í þinginu. Ég skil alveg þau sjónarmið þó að ég hafi kynnt mér þessi mál talsvert út af fyrri aðkomu minni að málum og það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn séu upplýstir eftir fremsta megni áður en þeir samþykkja mál á borð við þetta. Ég tel mig hafa nægilega sterk rök til þess að gera það út frá til að mynda út frá þeim samtölum sem ég hef átt við Tónlistarskólann í Reykjavík, en ég held að framtíðarsýn ráðherra verði að liggja á borðinu. Það er líka eðlileg krafa frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Kannski getur hv. formaður hennar sem hér er í sal upplýst okkur hvort nefndin hafi fengið einhverja slíka kynningu frá hæstv. ráðherra, því að auðvitað þarf hún að liggja á borðinu. Ég er sammála hv. þingmanni um það.