144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Á síðustu dögum síðasta þings, ég held að það hafi verið í apríl eða maí, var einnig rætt um eflingu framhaldsnáms í tónlistarskólum og þá var samkomulagið frá 2011 framlengt. Það var tímabundin og átti að vera tímabundin aðgerð, forseti, en ekki hefur tekist betur til en svo að enn hafa lög um framhaldsnám í tónlist ekki verið endurskoðuð og er það þó brýnt. Nú erum við hér vonandi á síðustu dögum þings og nú er verið að samþykkja að flytja 30 milljónir úr varasjóði húsnæðismála til þessa, í raun er verið að færa úr jöfnunarsjóði. Í frumvarpinu segir um það, virðulegi forseti:

„Sú breyting er þó gerð að 30 millj. kr. framlag ríkisins til varasjóðs húsnæðismála er fellt niður. Samsvarandi fjárhæð er þess í stað varið til þess að stuðla að lausn á bráðavanda tónlistarskóla sem kenna nemendum sem stunda nám á 4. stigi sem er að jafnaði undanfari náms á háskólastigi.“

Þetta eru sem sagt nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi í tónlist.

Svo segir áfram, virðulegi forseti:

„Unnið er að því að ná samkomulagi milli sveitarfélaga, tónlistarskóla í Reykjavík og ríkisins um heildstæða lausn á fjárhagsvanda einkarekinna tónlistarskóla í Reykjavík.“

Virðulegi forseti. Það hefur verið mikill vandi í Reykjavík og það er ekki síst vegna þess að eðli máls samkvæmt þá sækir fólk gjarnan í framhaldsnám í tónlist á höfuðborgarsvæðinu, kannski vegna þess að fólk er hugsanlega hér í háskóla en er líka í framhaldsskólastigi í tónlistarnámi, það er komið hingað í höfuðborgina og sækir námið því hér. Þannig að höfuðborgin hefur kannski borið þetta af talsvert meiri þunga má segja en önnur sveitarfélög. Tónlistarskólakennarar í Reykjavík hafa lagt á það mikla áherslu við okkur þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna að þegar kemur að heildarendurskoðun þá þurfi að líta til þess að þetta leggst mjög þungt hér.

Virðulegi forseti. Vissulega þarf að gera það. En það má ekki gera það á þann hátt sem nú virðist vera ætlunin, því miður, miðað við það sem maður heyrir af fréttum en hefur ekki út af fyrir sig staðfestar heimildir aðrar fyrir því. Heildarendurskoðun hæstv. menntamálaráðherra núna virðist miða að því að nám á framhaldsskólastigi í tónlist færist til Reykjavíkur, tónlist færist öll til Reykjavíkur, og ekki verði áfram stutt við það nám úti á landi. Það er náttúrlega mjög vond tilhugsun að það geti verið ætlunin, vegna þess að það sem hefur eflt tónlistarlíf hér og gerir það t.d. að verkum að við eigum þessa flottu sinfóníuhljómsveit og við eigum flotta tónlistarmenn úti um allt er einmitt að fólk hefur getað stundað framhaldsnám í tónlist um allt land. Við megum ekki eyðileggja það. Það má ekki koma fyrir.

Virðulegi forseti. Ég veit að þessi umræða er ekki hluti af þessu frumvarpi hér sem ég mun náttúrlega styðja. En það getur ekki verið að við förum í gegnum umræðu um frumvarpið án þess að ræða það sem hefur komið fram hjá ræðumönnum, hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér, að hæstv. menntamálaráðherrann hefur farið þannig fram í störfum sínum að hann ætlar að breyta grundvallaratriðum í mennta- og menningarlífi í gegnum fjárlögin, í gegnum fjárlögin, virðulegi forseti. Hann fór að vísu út á land og ég heyri það á þingmönnum sem eru utan af landi að þeir beri þá von í brjósti að það hafi verið hægt að koma viti fyrir hæstv. ráðherrann á ferðalagi hans um kjördæmi varðandi framhald skólanna fyrir nokkrum vikum. En hann hefur ekki sýnt það gagnvart einni elstu menntastofnuninni sem er í næsta nágrenni við okkur. Hann gerir ekki svo mikið sem að virða viðlits hugmyndir Menntaskólans í Reykjavík um það hvernig þeir geti hugsanlega hagað sinni kennslu, þeir geti verið með fjögurra ára framhaldsskóla sem byrjar árinu fyrr en almennt gerist. En hann virðir það ekki viðlits, heldur notar bara afl fjármagnsins til að breyta þessu og virðir ekki viðlits þá sem tala fyrir öðru. Hann gerði þetta hið sama gagnvart nemendum sem eru 25 ára og eldri. Þá átti að nota fjárlögin til þess að þeir nemendur kæmust ekki í hina almennu framhaldsskóla. Hann ætlaði að gera það líka og gerði að hluta til varðandi Ríkisútvarpið. Nú höfum við reyndar fregnir af því að hann muni draga til baka eða breyta þeim tillögum sem voru lagðar fram um að lækka útvarpsgjaldið enn þá meira. Ég vil bara segja það, virðulegi forseti, að mér finnst það nánast ógnvekjandi að við séum komin hér með ríkisstjórn og menntamálaráðherra sem ætli að breyta framhaldsskólakerfinu og breyta Ríkisútvarpinu, breyta öllu þessu í gegnum fjárlög og ekki tala um það í þinginu.

Ég vil því taka undir það sem kom fram hér áðan að við hljótum að fara þess á leit að ráðherra skýri þetta fyrir okkur. Það er nefndin sem flytur frumvarpið þannig að við erum við 1. umr. og við hljótum að gera þá kröfu eða fara fram á það kurteislega alla vega að menntamálaráðherrann verði við 2. umr. frumvarpsins og hann geti þá sagt okkur um hvað þær tillögur eru nákvæmlega sem er verið að ræða um breytingu á kennslu á framhaldsskólastigi í tónlist í landinu.

Ég vil ítreka það sem ég hef sagt hér á undan. Ég tel að auðvitað þurfi að líta til sérstöðu höfuðborgarinnar í þessum efnum, að þar geti verið meiri eftirspurn en annars staðar vegna þess að fólk kemur kannski úr öðrum sveitarfélögum til höfuðborgarinnar og er t.d. í háskólanámi eða einhverju öðru og fer í framhaldsnám í tónlist með því. En, virðulegi forseti, við getum náttúrlega ekki samþykkt að sú mikla gróska sem hefur verið um landið í framhaldsmenntun og framhaldskennslu í tónlist verði aflögð án þess að það sé rætt alveg til botns og við vitum hvað er á seyði. Auðvitað geta menn hafa haft ólíkar skoðanir á því hvernig það eigi að vera, en við þurfum að fá rök með og á móti hér, virðulegi forseti, áður en það gerist í gegnum fjárlögin.