144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það. Mér finnst alveg nauðsynlegt að hæstv. menntamálaráðherra komi hér og sýni aðeins á spilin í tengslum við þetta undarlega mál, vil ég eiginlega leyfa mér að segja. Það var auðvitað mjög sérstakt að hlusta á framsögumann tala í hálfgerðum afsökunartón fyrir þessu máli vegna þess að það væri ekkert annað að gera í því klúðursástandi sem þarna er uppi. Án þess að ætla að kenna neinum þar um þá verð ég að segja alveg eins og er, af því að ég kom dálítið að þessu á sínum tíma, að það eru mikil vonbrigði að þetta skuli aftur hafa lent í svona uppstyttu, þessi samskipti ríkis og sveitarfélaga varðandi framlög til tónlistarfræðslu á framhaldsskólastigi eða æðri skólastigunum. Eftir áralangan vandræðagang milli ríkisins og sveitarfélaganna var þó loksins tekið til í þessu 2011 og ríkið setur inn umtalsverða nýja fjármuni, ætli það hafi ekki verið 250 milljónir nettó sem stóðu eftir af nýjum fjármunum ríkisins inn í dæmið þegar 480 milljónir mínus þær 230 milljónir sem reiknað var upp í þau verkefni sem sveitarfélögin tóku yfir á móti. Þá var auðvitað meiningin að þetta kæmist í það horf að að slepptu grunnnáminu, þar sem þegar liggja fyrir fastmótaðar reglur um kostnaðarþátttöku lögheimilissveitarfélags ef það er annað en þar sem námið fer fram, kæmi ríkið að þessu með sveitarfélögunum, þeim sem væru með nám á framhaldsstigi. Það skiptir mjög miklu máli vegna þess að eðli málsins samkvæmt er það á færri stöðum og miklu, miklu meira um það að nemendur í framhaldsskólum séu komnir út fyrir sitt lögheimilissveitarfélag og þá ætti þessi vandi að vera leystur, hvort sem heldur er gagnvart Reykjavík eða öðrum.

Svo tek ég undir það, þessar stórbrotnu hugmyndir sem maður heyrði í fréttum núna á dögunum frá hæstv. menntamálaráðherra — sem virðist líta svo á að hann geti inni í ráðuneyti sínu endurskipulagt hluti fram hjá lögum og án þess að spyrja kóng né prest en kannski leita eftiráheimilda í fjárlögum — um að leggja niður stuðning ríkisins við allt framhaldsskólanám á landsbyggðinni og (Forseti hringir.) stofna einn ríkistónlistarskóla í Reykjavík, ég þykist hafa heyrt þessar fréttir réttar.