144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann ekki þessar upphæðir alveg nákvæmlega en mér skilst að hvað varðar það samkomulag sem gert var 2011 hafi verið einhver mismunandi túlkun á því, hvernig Reykjavíkurborg túlkaði það og hefur talið sig bera meiri þunga af því en samkomulagið gerði ráð fyrir. Þá tel ég að það þurfi að endurskoða. Ég endurtek að tónlistarkennarar og skólar í Reykjavík hafa lagt mjög hart að okkur þingmönnum kjördæmisins, ef ég má orða það þannig, að vera á verði við endurskoðun út af þessu. Það er sannast að segja þannig að það er ekki mjög oft sem er höfðað til okkar þingmanna í Reykjavík sem kjördæmisþingmanna og mætti vera meira, en það er væntanlega vegna fjöldans sem hér er og hinnar margvíslegu grósku sem er í höfuðborginni og eðli máls samkvæmt ekki um allt land. Ég vil leggja mikla áherslu á að mér falla illa þær fregnir sem heyrast af því að það sé eins og að leggja eigi framhaldsnámsstigið af úti á landi. Ég trúi því samt ekki alveg, virðulegi forseti, fyrr en ég tek á, en legg aftur áherslu á það að við þurfum að fá hæstv. ráðherra við 2. umr. málsins.