144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

ávarp forseta Íslands.

[11:45]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hæstv. forseti. Alþingismenn og ráðherrar. Góðir Íslendingar. Í árdaga hins endurreista Alþingis var rétturinn til lýðræðislegrar þátttöku bundinn við fámenna sveit efnaðra bænda og kaupstaðarbúa, embættismenn og aðra karla með lærdómspróf. Öll alþýða manna var utan garðs á vettvangi valdsins. Lengi hafði einungis innan við tíundi hluti þjóðarinnar rétt til að kjósa sér fulltrúa á Alþingi. Leiðin til áhrifa án skerðinga á grundvelli kyns, tekna eða eignar var í senn löng og torsótt, mörkuð átökum og skorti á samstöðu um réttindi sem nú þykja sjálfsögð. Hið lýðræðislega samfélag, aðalsmerki okkar tíma, hornsteinn stjórnskipunarinnar, var á engan hátt sjálfsagt eða auðvelt í mótun, og er enn draumur milljóna, jafnvel milljarða, kvenna — og líka karla — sem víða um veröld búa við höft og helsi, fátækt og kúgun.

Á afmælishátíð er hollt að minnast hve torsótt réttindin voru. Fáeinir frumherjar riðu á vaðið, Bríet Bjarnhéðinsdóttir með fyrsta opinbera fyrirlestri sem kona flutti í Reykjavík, Theodóra Thoroddsen með skrifum í Þjóðviljann, bæði á Ísafirði og á Bessastöðum. Greinar hennar og annarra kvenna voru oft undir dulnefni því að tíðarandinn leyfði ei annað. Bænaskráin að vestan og úr Þingeyjarsýslu til Þingvallafundarins 1888 var aðeins frá 100 konum, vitnisburður um að brekkan var brött og baklandið lítið.

Þegar konur fögnuðu svo kosningarrétti til Alþingis 1915 með fylkingu og fánaborg hér á Austurvelli voru liðnir áratugir frá því að krafan hljómaði fyrst, svo langar voru fæðingarhríðir þessa sjálfsagða réttar. En gleymum ekki, eins og áréttað hefur verið hér í dag, að tímamótin voru líka fagnaðarstund hinnar fátæku alþýðu, bæði karla og kvenna, því að örbirgðin var ekki lengur ævarandi útlegðardómur frá lýðræðislegum áhrifum. Innan nokkurra ára höfðu snauðir sem ríkir, konur og karlar fengið sjálfstæðan sess og sama rétt til að kjósa sér fulltrúa á löggjafarþingið þótt hinir allra fátækustu yrðu að bíða enn lengur.

Alþingi hélt þó áfram sömu ásýnd og fyrrum. Fyrstu 30 árin tóku aðeins tvær konur hér sæti og á kjörtímabilunum frá 1953–1971 hlaut ýmist ein kona, tvær eða jafnvel engin kosningu til Alþingis, og reyndar aðeins þrjár við hverjar kosningar næstu tíu árin þar á eftir. Sú víðtæka þátttaka kvenna sem nú setur jafnan svipmót á löggjafarstörfin nær því aðeins til um síðasta þriðjungs þeirra 100 ára sem liðin eru frá þáttaskilum í formlegum réttindum. Það er staðreynd sem minnir okkur á að árangur í baráttunni fyrir breyttu þjóðfélagi byggir ekki aðeins á lagatexta heldur líka á hugarfari, siðmenningu, aðstæðum og uppeldi.

Þótt lítið breyttist lengi vel hefur á undanförnum áratugum náðst verulegur árangur í áhrifum kvenna og Ísland líklega nú eina landið í veröldinni þar sem konur hafa gegnt öllum æðstu stöðum ríkis og kirkju, verið í forsæti löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, setið á biskupsstóli og í sæti þjóðhöfðingjans.

Ísland skipar líka efstu sætin í alþjóðlegum mælingum á réttindum og sessi kvenna, aðstöðu til menntunar og áhrifa. Víða um heim líta konur til Íslands sem fyrirmyndar. Nýlega kom sveit kvenna frá vesturströnd Bandaríkjanna hingað í eins konar pílagrímsför. Þó vitum við vel, eins og einnig hefur verið ítrekað hér í dag, að margt má gera betur, að víða er umbóta þörf í okkar eigin ranni.

Samt skulum við á þessum degi fagna þessum mikla árangri, gleðjast yfir stöðu Íslands í þessum efnum, þakka þeim sem ruddu brautir þegar tíðarandinn blés einatt hvasst á móti. Sérhver þjóð þarf að halda til haga því sem vel er gert, þekkja sögu sína og samanburð við aðra, tapa ekki áttum í átökum líðandi stundar.

Árangurinn á þó líka að verða okkur efniviður í samstöðu með milljónum kvenna sem enn glíma við örbirgð og kúgun, sviptar réttindum og sjálfsvirðingu, kvenna sem búa við svo sára fátækt að þær verja klukkustundum á hverjum degi til að tryggja vatn og mat til næsta dægurs, þola sjálfar sult til að fæða fjölskylduna, kvenna sem þurfa að jarða börnin sín vegna skorts á heilbrigðisþjónustu og hreinlæti, kvenna sem þola ofbeldi og kúgun, eru nánast fangar á eigin heimilum, kvenna sem þurfa að hlýða ráðstöfun karla um hjónaband og eru færðar öðrum, jafnvel seldar, eins og búfé, kvenna sem bannað er að ganga til bæna á sama hátt og karlar, gert að hylja andlit sitt og persónu í nafni trúar, kvenna sem dreymir um menntun, frelsi og betra líf en verða að lúta örlögum sem draga fremur dám af stöðu þræla á fyrri öldum en íslensku samfélagi á okkar tímum, samfélagi mannréttinda og lýðræðis sem við heiðrum í dag.

Á þessum tímamótum í sögu okkar skulum við í gleði hátíðarhaldanna ekki gleyma systrum okkar víða um heim, ekki aðeins í fjarlægum álfum heldur líka í fátækrahverfum Vesturlanda. Þær eiga langa för fyrir höndum til að ná í þann áfangastað sem markar á hverjum degi tilveru okkar Íslendinga. Við skulum strengja þess heit að bregðast þeim ekki.

Það er sammannleg skylda að létta fjarlægum systrum slíka för, að vera við hlið þeirra í baráttunni, að nýta okkar eigin árangur til að styðja kröfur þeirra um réttlæti, skylda sem tengir í eina keðju hin siðuðu þjóðmál nýrrar aldar og þakkarskuld við íslenskar konur sem fyrrum létu ekki bugast og gerðu hugsjónina um jafnan rétt að leiðarljósi lífsins.

[Kvennakórinn Vox feminae söng lagið Hver á sér fegra föðurland.]